Karen Axelsdóttir - haus
17. mars 2010

Aðlagast tímamismun

airlineJæja þá er kominn tími til að leggja í hann áleiðis til Ástralíu og flýg ég til Singapore í kvöld. Ef þú villt  ekki vera eins og lumma á keppnisdag þá þarftu að passa þig að ferðast nógu tímalega og gefa þér helst 1 dag fyrir hvern klukkutíma sem það munar á tímanum þínum og tímanum þar sem keppnin fer fram. Ég sankaði að mér nokkrum góðum ráðum hjá nokkrum atvinnumönnum hér  um hvernig er best að yfirstíga flugþreytu á sem styrstum tíma og hafði eftirfarandi úr krafsinu.

Um leið og þú kemur út á völl, stilltu klukkuna á staðartíma á áfangastað og reyndu að ýmist leggja þig eða halda þér vakandi eftir því hvenær háttatími er á staðartíma. Til dæmis flýg ég kl 21:00 í kvöld og lendi kl 17:00 á morgun og er því í flugvélinni þegar það er dagur í Singapore en þeir eru 8 tímum á undan okkur. Það borgar sig því fyrir mig að halda mér vakandi í nótt og þrauka amk 2-3 tíma í viðbót eftir að ég lendi til að snúa mér við á sem skemmstum tíma.

Íþróttamenn sem hafa mjög stuttan tíma til að aðlagast breytta tímanum grípa stundum á það ráð að breyta tímanum 1-2 dögum áður. Einnig flýtir fyrir að aðlaga  máltíðir sínar eftir því t.d reyna að borða ekki þegar það er nótt á staðartíma.

Ekki drekka neitt áfengi, kaffi, kók eða annað sem þurrkar þig upp. Drekktu nóg af vatni og keyptu þér  2-4 vatsflöskur á vellinum svo þú þurfir ekki að trufla flugfreyjurnar eða stóla á aðra.

Stattu upp eins oft og þú getur án þess þó að pirra aðra eða vera fyrir.

Vertu í þrýstisokkum og helst þrýstibuxum innanundir (compression tights). Vertu í eins þægilegum fötum og hægt og spáðu í tísku seinna.

bicycle-airlineEf þú þarft að halda þér vakandi notaðu þá tímann til að fara vel  yfir keppnisplanið og skrifaðu það niður.  Sjáðu fyrir þér leikinn, hlaupið eða eins og í þríþraut sjáðu fyrir þér einn legg í einu fyrst sundið, svo hjólið og hlaupið og talaðu uppörvandi til þín. Sjáðu fyrir þér hvernig þú ætlar að hafa þetta. Ertu að miða við tíma eða ætlarðu að fara eftir líðan hverju sinni? Hvar ætlarðu að staðsetja þig í sundinu? Á hvaða hraða ætlarðu að hjóla hverju sinni? Hvað ætlarðu að borða í keppninni og hvenær?  Hvað getur farið úrskeiðis og hvernig ætlarðu að tækla það? Ef neikvæðar hugsanir sækja að, vertu þá með plan hvernig þú getur brotið það mynstur.

 Góða ferð