Karen Axelsdóttir - haus
20. mars 2010

Hugleiðing um vegalengdir

ironmdistance.jpg

Núna eru 9 dagar í Ironman og það rignir yfir mig hringingum og skilaboðum frá vinum og ættingjum. Ég fæ alltaf gullnu spurninguna sem er jæja Karen mín og hvað er þetta nú aftur langt? Ég svara ,,vegalengdin er 3.86 km sund, 180 km hjól og 42.2 km hlaup". Það kemur alltaf smá þögn og fólk fer að reikna þetta yfir á mannamál eða svona sem nemur 152 ferðum í 25 m sundlaug, síðan er hjólað jafnlangt og frá Reykjavík til Stykkishólms og í beinu framhaldi er hlaupið eitt stykki maraþon eða uþb. frá Grafarholti og uppá Þingvelli. Flestu venjulegu fólki finnst 5 eða 10 km hlaup meira en nóg þannig er það nema von að fólk haldi að maður sé búin að missa vitið.

Ég skal alveg kvitta undir að þetta eru öfgar og á mörkum þess að vera skynsamlegt og ef ég hugsa um vegalendina á þennan sama hátt þá fæ ég alveg hroll. Þetta snýst um góðan undirbúning. Hjá flestum sem reyna fyrir sér Ironman liggur sem betur fer nokkurra ára góður grunnur í amk einni greinanna að baki og fyrir Ironman eitt og sér er 5-12 mánaða undirbúningur þar sem maður smám saman eykur vegalengdina í greinunum þremur.

Ég er búin að vera 4 ár í íþróttinni og er fegin að hafa ekki látið freistast að gera þetta fyrr þar sem líkami minn hefði hreinlega ekki verið tilbúinn í þessar vegalengdir fyrr . En svona til að gefa öðrum von þá gat ég þegar ég byrjaði ekki synt meira en nokkrar ferðir samfellt skriðsund, varð þreytt eftir klukkutíma hjólatúr og fannst mikið að hlaupa í 30-40 mín. Hvað þá að gera þetta saman. Aðlögunarhæfni líkamans er ótrúleg og ef einhver hefði sagt mér fyrir 4 árum að ég ætti eftir að starfa við að þjálfa íþróttina eða standa á verðlaunapöllum víða um heim þá hefði mér þótt fátt fjarri sanni. Núna finnst mér varla taka því að draga út hjólið fyrir minna en 90 mínútur eða hlaupa í klukkutíma og finn varla fyrir 3 tíma hjólatúr. Spyrjum reyndar að leikslokum því ég á enn eftir að ganga í gegnum þessa þrekraun.

En sama hvar þú ert staddur eða stödd og hvort sem markmiðið er að ljúka 10 km hlaupi eða ljúka Ironman þá ert þetta spurning um löngun, vilja og það að gefa líkamanum tíma til að byggja sig smám saman upp.