Karen Axelsdóttir - haus
22. mars 2010

Eyða áhyggjum og njóta

Í framhaldi af pistli mínum "hugleiðing um vegalendir" skal ég útskýra fyrir ykkur hvernig ég fer að því að fyllast ekki örvæntingu og ótta við það að hugsa um keppnina (3.8 km sund, 180 km hjól og 42.2 km hlaup) og hvernig þú getur notað sömu tækni við eigin keppnir eða aðrar áskoranir í lífinu. Ef þú ert að takast á við eitthvað stórt t.d að keppa í Ironman og sérð það fyrir þér eins og ég lýsti í gær t.d synda fram og til baka til Viðeyjar, að hjóla frá Reykjavík til Stykkishólms og að hlaupa svo maraþon, þá muntu eiga margar svefnlausar nætur.

worries_972827.png

Í stað þess að njóta hvers dags og hverrar æfingar fyrir sig muntu líklega eyða miklum tíma og orku í að hafa áhyggjur. Keppnin mun líða hjá, þú munt skrá þig í næsta mót og halda áfram að hafa sömu áhyggjur og áður en þú veist af þá ertu eins og hundur að elta á þér skottið hvað þetta varðar. Það er gott að vera spenntur og heilbrigt að hafa smá áhyggjur en þetta er mjög fín lína sem þú villt halda þig réttum megin við. Eitt af því sem hjálpar mér mikið við að njóta undirbúningsins og að sitja t.d núna áhyggjulaus þó ég hafi bara rúma viku til stefnu í Ironman er að ég er búin að brjóta upp vegalendina í marga leggi. Einnig er ég búin að sjá fyrir mér og skipuleggja hvernig ég ætla að hafa þetta á hverjum legg.

Þetta er eins og að læra fyrir próf, ef þú hugsar um allt námsefnið í einu þá fyllistu örvæntingu og finnst þú ekki kunna neitt en ef þú fikrar þig viku fyrir viku og rifjar upp hvað var tekið fyrir í hverri viku þá allt í einu sérðu samhengið og hlutirnir verða auðveldir. Eini munurinn á einstaka prófi og árangri í íþróttum er að það gengur ekki að redda sér bara 2 dögum fyrir keppni og halda maður geti orðið heppinn. Ég lærði sem betur fer þá lexíu í menntaskóla þar sem ég beitti þeirri tækni eitt árið með skelfilegri útkomu.