Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Heitt!
25. mars 2010

Heitt!

Núna eru 4 dagar til stefnu og kominn timi til að kveðja Sydney og halda ferðinni áfram til Port Macquarie þar sem keppnin er  haldin. Ég hefði betur sparað stóru orðin varðandi áhyggjuleysi því ég er nú komin með nettar áhyggjur. Í raun ekki útaf keppninni heldur útaf hitanum og rakanum, en hér er 29 stiga hiti í skugga og maður er  hreinlega að bráðna. Mig var farið að svima við það að sitja 2 tíma í opinni rútu í gær þannig það fóru að renna á mig tvær grímur hvernig í ósköpunum ég ætla að tækla þennan hita. Pistilinn frá Katli í gær róaði mig mikið og ég  var ekki lengi að  hlaupa útí apótek og birgja mig upp af salttöflum en ég hef enga reynslu af því að glíma við þessar aðstæður lengur en 3 tíma í senn. Ég fór sem betur fer í viku til Lanzarote í æfingaferð í febrúar en þar var hitinn 23-24 gráður sem er  þægilegt.  Mörkin liggja finnst mér í kringum 27-28 gráður varðandi að verða óbærilegt að hlaupa í en sólin hitar svo auðvitað mun meira en það.

Það er ekkert við þessu að gera og nú þarf ég að bjóða hitann velkominn og reyna aðlagast sem mest þessa daga sem ég hef til stefnu. Ég ætla að búa mig undir að það verði 35 stiga og sól þannig ef það verður skýjað eða kaldara þá verður það bara bónus. Það góða við hitann er að hnéð á mér er mun betra en það hefur verið  og maður verður allur mun afslappaðari. Nú skil ég af hverju gamalmenni og gigtarsjúklingar flykkjast  til Kanarí á veturnar , svo ég minnist ekki á að húðin er eins og silki!

Vinkona mín sem er atvinnumaður í þríþraut og vön að glíma við þetta gaf mér eftirfarandi ráð sem ég ætla að nýta mér.

1. Haltu þig frá loftkælingum og reyndu að vera sem mest utandyra í skugga til að að venjast loftslaginu. Það er alþekkt að fá kvef við það að sofa með loftkælingu á eða vera eilíft að vappa á milli heitra og loftkældra rýma.

2. Það er freistandi að flatmaga á ströndinni en þú mátt alls ekki sólbrenna dagana fyrir keppni.  Sólinn  þurrkar þig upp og gerir þig orkulausa/nn sem er það síðasta sem þú mátt  við. En hver kannast ekki við það að verða þreyttur eftir að hafa legið smá stund í sólbaði.

4. Drekktu nóg vatn og bættu smá salt slettu eða hálfri Nuun töflu út í aðra hverja flösku til að byggja upp forðann síðustu 2-3 dagana.

Varðandi keppnina þá ætla ég að fara eftir ráðum Ketils og það eina sem ég hef við þau að bæta er að nota derhúfu og sletta á sig sólarvörn eftir hjólið.