Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Ég er Ironman :-)
29. mars 2010

Ég er Ironman :-)

Ég er orðin Ironman(kona) og það er dásamleg tilfinning. Daginn fyrir var ég svo slöpp að ég hélt ég væri að verða lasin. Mér líður stundum þannig fyrir mót og held að líkaminn sé á sinn hátt að þvinga mann til að hvíla sig fyrir komandi átök. Ég vaknaði klukkan 3:45 til að ná að borða 3 tímum fyrir start og veit ekki hvort ég var meira spennt að fá kaffibollan minn langþráða eða fara í keppnina. Það var ennþá myrkur á mótsstað kl 6 og spennan í mannfjöldanum mögnuð. Hér er smá lýsing á hverjum legg fyrir sig en heildartíminn minn var 10:56 sem ég er í skýjunum yfir. Því miður er nettenging ekki nógu sterk hér á gistiheimilinu þannig það gengur ekki að hlaða inn myndir þessa dagana, en ég bæti úr því síðar. 

Sundið

ironmantryggvi_975624.jpgÉg hef oft farið á stórmót en aldrei synt af stað með 1540 manns. Ég var varla komin ofan í þegar hleypt var af byssunni og kraðakið var þvílíkt. Þetta var eins og að vera í þvottavél, þú sérð ekki neitt og verður bara að fylgja straumnum. Sundið var það eina sem ég hafði sett mér tímamarkmið fyrir en draumurinn var að ná undir klukkutíma en undir 65min hefði mér fundist ásættanlegt. Ég tróð mér því viljandi frekar framarlega. Gallinn við að vera framarlega er að það eru margir sem synda yfir þig en kosturinn er sá að þú festist ekki í hægum hóp og getur náð þér í gott "draft". En ef þú ert aftarlega þá festistu oft í hóp með hægum sundmönnum og það er vonlaust að brjóta sig úr því í svona fjölda. Sundið var yndislegt, ég eyddi nánast engri orku og tíminn 58.26 er eitthvað sem ég get verið stollt af.

Skiptisvæðið eftir sund

Í styttri vegalengdum eða ef þú ert að keppast um verðlaunasæti í Ironman þá skiptir hver sekúnda máli og lykilatriði að vera nógu snöggur á skiptisvæðinu og maður hreinlega stekkur á hjólið, berfættur með skóna, hjálminn og allt fast á hjólinu. Þetta voru því frekar mikil viðbrigði að þurfa þurfa ekkert að stressa sig og hvað þá að hafa 2 aðstoðar menn sem klæddu mig eins og lítið barn, báru á mig sólarvörn og gáfu mér að drekka. Sennilega í fyrsta og síðasta skipti sem ég upplifi það þannig  ég naut þess í botn.

Hjólið

ironmankarenhlaupHjólavöllurinn var krefjandi og nánast ein brekka en útsýnið var svo stórfenglegt að ég gleymdi mér alveg. Ég er sterkur hjólreiðamaður og keyri mig oftast út þar til að ná góðu forskoti. Sú stefna virkar vel í styttri vegalendum enda hlaupið bara 5-21 km. Ironman er eins og önnur íþróttagrein, ef þú keyrir þig út á hjólinu þá er þetta búið spil og þú munt nánast deyja á maraþoninu. Ég hef aldrei hlaupið maraþon og aldrei farið í Ironman þannig fyrir svoleiðis fólk er lykilatriði að halda aftur að sér á hjólinu. Mér leið stórkostlega á hjólinu og freistingin til að stíga á bensíngjöfina var þvílík. Sem betur hafði ég vit á því að leigja mér í nokkrar vikur "watt" mæli sem sýnir nákvæmlega hve mikilli orku þú eyðir. Ég veit að ég get hjólað óþreytt á 190 wöttum í 6 tíma og því hélt ég mér algjörlega við það plan. Það þýddi að t.d í brekkunum fór ég svo rólega að eldri menn voru að taka fram úr mér. Þessi stefna virkaði og lappirnar voru eins ferskar og þær geta verið eftir 180 km túr. Tíminn kanski frekar hægur á minn standard en samt fínn, sérstaklega á þessum velli eða 5 klst og 47 mín.

Skiptivæð eftir hjól

Það var eflaust skemmtilegur svipurinn á mér þegar ég sá að ég hafði ekki sett neinar hlaupabuxur í skiptipokann minn (týpískt ég) en venjulega keppir maður í heilgalla og þarf því ekki að skipta um föt. Ég var sem betur fer í bikini buxum undir hjólabuxunum og þær urðu bara að duga.

Maraþonið

Sem betur fer hafði ég aldrei séð hlaupa völlinn því brekkurnar á hluta vallarins voru skuggalegar. Planið var að hlaupa á milli drykkjarstöðva sem eru með 2 km millibili og aldrei hugsa um neitt annað en að komast á næstu stöð. Hitinn fór uppí 30 stig í skugga þannig að hlaupa þarna í sólinni var eins og að hlaupa í sánu. Mig var farið að svima mikið eftir um klukkutíma þegar ég allt í einu fattaði að skella klökum í derhúfuna mína og hlaupa með klakana á hausnum. Þetta munaði öllu. Þeir voru með vatnsslöngur til að kæla fólk en gallinn er að þá færðu allt í skóna sem gefur pottþétt hælsæri. Ég var í topp standi fyrstu 28 km og þurfti hreinlega að halda aftur að mér en þá byrjaði hnéð á mér að stríða mér og ég átti erfitt með að beygja það. Ég minnkaði bara skrefin, skellti klökum undir hnéhlífina og var fyrst og fremst ánægð með að það hefði ekki byrjað fyrr. Að öðru leiti var ég samt í svo góðu standi að ég ætlaði ekki að trúa því en allt í kringum mig var fólk gangandi, styðjandi sig við grindverk og sumir liggjandi undir tré. Stuðningurinn var svo magnaður að ég á ekki til orð. Gunnar maðurinn minn, 8 ára sonur minn Tryggvi (sjá mynd með honum hlaupandi mér við hlið) og mamma og pabbi voru þarna eins og klettar og er ég þeim afar þakklát fyrir það. Heimamenn flykktust í þúsundum út á götur og ég fékk endalaus hrós fyrir bikinibuxurnar og tvö giftingarbónorð þannig geri aðrir betur. Tíminn á hlaupinu var 4 klst og 1 mín sem er miklu meira en ég þorði að vona miðað við undirbúning en sigurvegari í atvinnumannaflokki fór á 3 klst 29 mín sem sýnir hvað völlurinn er erfiður. Það var ótrúleg tilfinning að klára þetta. Ég mun fara betur yfir einstök atriði í síðari pistlum.

Mun ég gera þetta aftur?

Ég tengi Ironman alltaf við algjöra örmögnun og bjóst við að sligast í mark þannig það var ótrúlega skrítið að líða svona vel og þetta var einn besti dagur í lífi mínu. Ég slapp samt ekki alveg því í gærkvöldi leið mér ömurlega. Í dag er ég samt eldhress þannig að svarið er sennilega ,,já". Munurinn er bara að það er tvennt ólíkt að klára og að keppa og ef ég fer aftur þá verður það til að keppa og reyna að komast til Hawaii á heimsmeistaramótið. Ég þarf að fara 30-45 mín hraðar í heildina til þess að ná því en það ætti að vera vel gerlegt ef undirbúningur er eðlilegur og ég vel mér hraðari völl.