Karen Axelsdóttir - haus
2. apríl 2010

Átsukk upp í bústað

saelgaeti.jpg

Nú er Páskahelgin framundan og landsmenn vonandi flestir i fríi og að fara út úr bænum. Ertu ein(n) af þeim sem þarft að ná af þér 1-2 kg eftir allar steikurnar, nammið og vínið eftir bara eina helgi uppi í bústað? Ég á mína spretti og eftir 2-3 sumarbústaðarferðir á hverju sumri á Íslandi þá fæ ég oftast ógeð og er fegin að vera ekki í þessum pakka árið um kring. Samt hef ég oft hjólað hluta af leiðinni og annað hvort synt eða hlaupið báða helgardagana. Það er ofneysla af mat og sértaklega sælgæti sem fer alveg með þetta. Ólikt flestum eru það  ekki kílóin sem ég þarf að spá í heldur hreinlega líður mér ekki vel og finn hvað svona át og sykurneysla er slæm fyrir almenna líðan.

Þetta er spurning um slæmar venjur. Fyrir örfáum árum og sérstaklega eftir að ég byrjaði að keppa í íþróttum og flutti erlendis þá komst ég sem betur fer í betra mynstur og fór meðvitað að líta á helgarnar sem tíma til að rækta sjálfa mig og vera vel úthvíld. En þegar ég er á Íslandi og sérstaklega ef ég fer út úr bænum þá dett ég í sama farið sem ég var í í mörg ár helgi eftir helgi þe. stoppa í sjoppum, borða meira en venjulega og hreyfa mig minna. Því þarf ég vanalega að eyða mánudegi og þriðjudegi í að vinna upp skaðann.

Kannast þú við þetta mynstur? Ég er ekki að segja þér að skipta snakkinu út fyrir gulrætur heldur meira að fá þig til að hugsa um þitt helgarmynstur og hvort þú gætir gert eitthvað til að bæta það. En fyrst  afreksíþróttafólk þarf að hugsa vel um svona hluti þá held ég að kyrrsetufólk þurfi að gera það líka.