Karen Axelsdóttir - haus
4. apríl 2010

Skriðsund eða golf?

karensund.jpg

Ef einhver spákona hefði sagt mér landkrabbanum  fyrir 4 árum síðan að ég ætti eftir að skrifa um sund eða kenna fólki skriðsund þá hefði ég fengið hláturskast. En áður en ég byrjaði í þríþrautinni þá fóru allar mínar sundferðir fram í heita pottinum og ég skildi ekkert í þessu sundpakki sem nennti að synda endalaust fram og til baka. Ég var svo léleg í skriðsundi þegar ég skráði mig í mína fyrstu þríþraut 2006 fékk ég ekki einu sinni inngöngu í hverfisklúbbinn minn, en lágmarks inntökuskilyrði þar eru að viðkomandi geti synt 400 m samfellt skriðsund. Ég var langt frá því, tæknin hjá mér var ömurleg og eftir 2-3  ferðir var tankurinn búinn og þolinmæðin farin.

 Skriðsund minnir mig helst á golf eða jafnvel það að læra nýtt tungumál. Það er svo tæknilegt að t.d 7 ára krakki getur með betri tækni auðveldlega synt hraðar en þrekvaxinn karlmaður. Tæknin þarf að vera svo fáguð að fyrir okkur sem tökum þetta ekki upp fyrr en á þrítugsaldri eða seinna þá verðum við því miður sjaldan jafn góð og þeir sem hafa æft sund fyrr á lífsleiðinni. Auðvitað eru til undantekningar en þær eru fáar.

Til þess að læra skriðsundið fljótt og almennilega þarftu líkt og í golfi að hækka þolinmæði þröskuldinn og nota á þér hausinn.  Það sem ég á við með því er að þú þarft að staldra við og hugsa um þau atriði sem þú ætlar að laga hverju sinni en  ekki bara gera eitthvað. Þetta er alveg  eins í golfi þ.e ef þú mætir bara á æfingasvæðið og dúndrar út tveimur  fötum án þess að staldra við og hugsa um hvað þú ert að reyna að laga þá geturðu bókað að þú munt hjakka í sama farinu lengi. Sundið hefur vinninginn hvað varðar "fitness" en golfið vinninginn hvað varðar félagslegu hliðina því það er ekki einu sinni hægt að tala við sjálfan sig í sundi : )

Á morgun skal ég fara með ykkur í gegnum nokkur atriði sem mér finnst gera kraftaverk þegar ég er að þjálfa aðra í sundi.