Karen Axelsdóttir - haus
9. apríl 2010

Kapphlaup við sjálfan þig

Eitt af því sem hjálpar mér mikið bæði varðandi hvatningu og til að koma í veg fyrir ofþálfun er að blanda saman á víxl erfiðum og léttum æfingum. Eins og það er hvetjandi að hlaupa sama hverfishringinn hraðar eða hjóla æfingahringinn á skemmri tíma þá hættir manni til í að lenda í eilífu kapphlaupi við sjálfan sig.Þú getur ekki staðið í því að bæta tímann þinn á hverri einustu æfingu (nema alveg í byrjun). Einnig ef þú ert ert alltaf að þrýsta þér á ystu nöf þá fara æfingarnar að verða kvöð. Ég sé gjarnan gerast hjá fólki sem er að byrja að hlaupa eða í þríþraut þ.e það sprengir sig á hverri einustu æfingu og er eðlilega með slæmar harðsperrur , eymsli í lungum, þreytt og kvíðir jafnvel næstu æfingu. Þetta fólk fær algjört ógeð og endist eitt tímabil eða eitt hálf-maraþon.

trackkonur.jpg

Ég hef yfir veturinn í mesta lagi eina vikulega sprettæfingu æfingu (hraðar en keppnishraði) í hverri grein t.d 12 x 400 m hlaupasprettir og eina æfingu þar sem ég fer á keppnishraða í hverri grein en þær æfingar eru þá einnig mun styttri eða 45-75 mín meðan að ólympísk þríþrautarkeppni tekur 2-3 klukkutíma. Aðrar vikulegar æfingar eru á frekar þægilegum hraða t.d tækniæfingar og ég kem endurnærð heim.

Viðmiðunarreglan er að þú vilt ekki mæta þreyttur á sprettæfingu eða hraðaæfingu en við keppnisfólk þurfum flest aga til vera ekki alltaf á hamsturhjólinu. Með því að brjóta þetta svona upp finn ég að ég hlakka hreinlega til erfiðu æfinganna. Löngu rólegri hlaupin eru allt í einu orðin eins og spjallstund með félögunum og tækniæfingar eins og hugleiðsla.

Við erum öll mismunandi og þú verður að finna hvað virkar fyrir þig en ef æfingarnar eru orðnar kvöð þá þarftu að endurskoða æfingarplanið. Eins ef þú ert ekkert að bæta þig prófaðu að víxla erfiðari og léttari æfingum í stað þess að hafa allar æfingar eins eða allar æfingar of léttar.