Karen Axelsdóttir - haus
10. apríl 2010

Miða við tíma og púls

 Í kjölfari pistilsins í gær ,,kapphlaup við sjálfan þig" datt mér í hug að minnast á eitt sem hjálpar mér á löngu æfingunum. Ég miðaði áður alltaf við kílómetra og það virkar ágætlega á sumrin eða innandyra á turbo þjálfa þar sem aðstæður eru alltaf eins. En um leið og ég fór að hjóla meira yfir vetrartímann var ég fljót að sjá að kílómetrar eru afstæðir og oft villandi að miða æfinguna út frá þeim.

polar_heart_rate_monitor.jpg

Núna miða ég löngu hjólatúrana og líka hlaupin eingöngu við tíma og púls og passa mig að stytta eða lengja æfinguna þannig ég komi alltaf heim miðað við æfingatíma skv. plani. T.d ef æfingin á að vera 2 tímar þá sný ég við eftir 1 klst og er ekkert að spá í km.

Eins passa ég mig að stilla hraðann og álagið af mv. púls. Þetta á sérstaklega við á Íslandi þar sem hvassviðri og úrkoma eru daglegt brauð yfir vetrartímann. Ef ég fer í 3 tíma túr þá getur skeikað mörgum km hvað ég hjóla langt t.d ef það er mótvindur eða slydda en það er auðvelt að missa móðinn ef maður kemst hægar yfir en venjulega. Í góðu veðri eða meðvind er þetta öfugt og ég þarf gjarnan að lengja túrinn eða taka aðeins meira á til að fá það sama út úr æfingunni.

Undirlagið skiptir einnig sköpum varðandi hvað þú kemst hratt yfir hvort sem þú ert á hjóli eða hlaupandi. Til dæmis ef þú ert að hlaupa í sandi eða miklum hæðum þá kemstu hægar yfir og púlsinn sennilega hærri. Þá stilli ég mig af út frá réttum púls og spái ekkert í hvort ég komist 11 eða 13 km í klukkutíma rólegu (zone 2) hlaupi.