Karen Axelsdóttir - haus
12. apríl 2010

Hlaupastíll 1 hluti

Margir hafa beðið um ráðleggingar varðandi hlaupastíl. Ég taldi mig hafa ágætis hlaupastíl þangað til  ég fór að æfa undir handleiðslu James þjálfara mínum fyrir 2 árum. Hann gjörbylti hjá mér stílnum og  kenndi mér á nokkrum vikum  að lenda á framfæti  og jók skrefhraðann úr 82 í 92 skref á mínútu. Tímarnir mínir ruku niður og ég varð mun léttari á mér sem munaði öllu, en í þríþraut eru lappirnar á þér eru oft eins og blý eftir hjólalegginn og því afar mikilvægt að vera létt/ur á sér.   Áður en ég rýk til og skrifa pistla um skrefafjölda, "forefoot running", newton skó og five fingers skó vil ég fara aðeins í grunnatriðin en ef þau eru ekki í lagi þá geturðu gleymt því að laga hjá þér stílinn.

Ég fór að bera saman bækur mínar við Smára Jósafatsson
hjá Smartmotion running  á Íslandi (sjá http://www.smartmotion.org/) . Ég er  mjög ánægð með hans nálgun sem í samræmi við þau atriði sem James kenndi mér og það sem við kennum hér. Eftirfarandi eru grunnatriði sem hann kennir á sínum námskeiðum en um 3000 Íslendingar hafa lært að hlaupa hjá honum  síðan árið 2006.

Aðalatriðin eru alltaf þessi grunnatriði:

1. Líkamsstaðan - lærið að virkja neðstu kviðvöðva
2. Hallið ykkur frá ökkla  og notið þyngdaraflið til að létta hlaupið
3. Slakið á vöðvum í kringum hné og verið með slaka kálfa, slaka ökkla og slakar tær
4. Seinkið niðurstiginu, lendið undir þyngdarpunkti ykkar og sleppið fótum aftur, alveg frá mjöðm
5. Öndun, getur tekið tíma að vinna í en er þess virði. Æfið öndun á göngu í byrjun, það er auðveldara en á hlaupum.
 
Þegar grunnatriðin eru komin á hreint þá bætið þið við einu atriði í einu til að hafa í huga þegar þið eruð að hlaupa.

Munið að þið þjálfist fyrr ef þið hugsið sömu aðferðir þegar þið eruð að ganga daglega t.d virkja meðstu kviðvöðva. Sömu aðferðir virka við léttari göngu- og fjallgöngur (fyrir utan að við lendum aðeins á hælnum á göngu, en við gerum það mýkra með virka neðstu kviðvöðva)
 
Ég þakka  Smára kærlega fyrir innleggið og við fáum vonandi meira efni og umfjöllun frá honum. Ég sé að hann kennir einnig pilates samhliða hlaupanámskeiðum. Það er ekki tiljviljun því pilates tækni er að mínu mati besta hjálpartæki sem til er  varðandi rétta beitingu á kviðvöðvum. En mörgum hættir  til að draga bara  inn magann og mynda þannig  spennu, en öll spenna heftir öndun og hefur slæm áhrif á hlaupastílinn.