Karen Axelsdóttir - haus
13. apríl 2010

Frábær vefsíða og flokkun

 

Hér er frábær  vefsíða til að læra eða bæta skriðsundið http://www.swimsmooth.com/

Það eitt að horfa á rétt sundtök hjálpar þér óbeint þegar þú kemur í laugina, en hér geturðu séð sundmanninn frá öllum hliðum og einnig stillt hraðann. Takið eftir hvað neðri hluti líkamans er nálægt yfirboðinu en eitt það fyrsta sem byrjendur byrja á að læra er að ná svokölluðu jafnvægi í vatninu og æfingar sem þú finnur á erlendum vefsvæðum til að laga þetta eru kallaðar “balance drills”.

Hér skilgreina þeir byrjendur sem þá sem eru að læra sundtökin eða eru ennþá  á því stigi að þurfa að stoppa reglulega og hvíla.

Meðal sundmenn eru þeir sem synda 100 metra skriðsund á 1:30-2:10. Þetta finnst mér reyndar ansi gróf flokkun. Það sem ég upplifi við þjálfun er að þeir sem hafa ekki sundbakgrunn ná sér á 3-4 mán úr 2:10 niður í 1:50 með því að synda tvisvar í viku. Til að komast niður í 1:40 þurfa flestir að synda þrisvar í viku (oftast í 6-12 mán) og til að ná þér niður í 1:30 erum við að tala um 4-5 sinnum í viku (12-18 mán). Reyndar þegar þú nærð þér síðan á ákveðið stig þá þarftu gjarnan minna til að halda þér við en ég tek fram að þetta eru mín viðmið og auðvitað mjög misjafnt eftir einstaklingum.

Góða sundmenn flokka þeir þá sem synda 100 m á undir 1.25 mín. Þeir sem synda margar endurtekningar á þeim tíma er oftast fólk sem æfði sund á yngri árum. Til dæmis  í mínu liði eru það  allt gamlir sundmenn og til að viðhalda því synda þeir 5-6 sinnum í viku. Ég geri ráð fyrir að í þessarri flokkun eigi þeir við að fólk geti endurtekið þetta 15-20 sinnum með stuttri hvíld, en það er lítið mál að synda hratt  2 x 100 m og kalla sig góða :-)