Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Vöknuð úr dvala
23. apríl 2010

Vöknuð úr dvala

2010Australia_sing_ban 825Núna eru rúmar þrjár vikur síðan ég kláraði Ironman. Eftir að hafa ferðast aðeins um Ástralíu og komið við í Bangkok á leiðinni heim þá lenti ég á Heathrow 2 dögum fyrir gosið og við tók vinnan og daglegt líf. Alltaf gott að koma heim og það voru heldur betur fagnaðarfundir að sjá aftur dótturina sem var í dekri hjá ættingjum á Íslandi og kom ekki með til Ástralíu.

Miðað við hvað mér leið stórkostlega í keppninni þá er auðvellt að fara að hugsa ,,ég hefði átt að fara aðeins hraðar“ . Þegar ég horfi til baka þá er ég ekkert smá ánægð með sjálfa mig hvernig ég stóð að öllum undirbúningi og hvernig ég tæklaði mótið. Væntingarnar hjá mér fyrir Ironman voru litlar og ég var löngu búin að sætta mig við það hlaupið yrði óskrifað blað og hreinlega afrek eitt og sér ef ég kæmist í gegnum það. Maður veit aldrei hvað gerist og ef ég hefði farið 15 mín hraðar á hjólinu þá er alveg eins líklegt að ég hefði borgað fyrir það til baka með því að vera klukkutíma lengur á hlaupinu. Markmiðið hjá mér var að komast í gegnum þetta án þess að rústa á mér hnénu og það tókst. Ég hefði orðið ánægð með tíma undir 12 klst á þessum velli og 11 :15 var fjarlægur  draumur.  Þannig að klára á 10 :56 var óvænt ánægja.

Fyrstu vikuna eftir Ironman var adrenalínið greinilega enn á háu stigi. Mér leið eins og Superman og það var freistandi að halda áfram að æfa . Það var búið að vara mig við þessu og ég er fegin að ég hlustaði því uþb. viku seinna helltist þreytan yfir mig og við tók rúmlega 2 vikna kafli þar sem mér leið eins og síþreytsjúklingi. Margir upplifa þetta og þreytan varir oft í 4-6 vikur. Það er ekkert við því að gera nema sætta sig við það og hlusta á líkamann. Á þessum kafla var mér nánast óglatt að horfa á hjólið mitt og snerti það ekki. Ég þröngvaði mér á tvær sundæfingar en var svo illa stemmd að ég farin að halda að nú væri áhuginn á sportinu farinn. Fjölskyldan var frekar hissa yfir þessarri nýju Karen sem nennti allt í einu engu en þau höfðu held ég lúmskt gaman af tilbreytingunni. Það breyttist svo sem betur yfir nótt og núna í vikunni vaknaði skrímslið úr dvala :-) Þ essi langa hvíld gerði mér greinilega gott en ég fékk loksins grænt ljós úr myndatökum og get því byrjað hlaupaæfingar aftur.  Fyrir mig er það eins og að vinna í lottóinu.  Núna tekur við skemmtilegur kafli og ég ætla að hefja undirbúning fyrir Evrópumótið og keppa þar fyrir Íslands hönd í byrjun júlí. Þar stefni ég á sigur í mínum flokki og top 3 yfir alla keppendur. Best að hugsa stórt annars verðurðu alltaf meðal Jón.