Það sem mér finnst mest hvetjandi er að æfa í góðum félagsskap. Það er gott að eiga góða vini sem maður æfir með en ef þetta er skipulögð starfssemi eða hópur þá ertu ekki háðu því ef æfingafélaginn mætir ekki, er of seinn osfrv. Einnig er þá sennilega einhver þjálfari til staðar sem getur leiðbeint þér eða verið eins konar "mentor". Spinning tímar og tímar í líkamsræktarstöðum eru ágætir og aðgengilegir öllum. Ég get samt ekki borið saman ánægjuna að vera í föstum hóp eða liði þar sem þú kynnist fólki mun betur, þar er meiri sérhæfing og þjálfarinn þekkir þig vel.
Þegar ég er á Íslandi þá hef ég fengið að hlaupa með ÍR og synda með Syndaselum sem er hópur sem Brynjólfur sundþjálfari er með í innilauginni á laugardal. Ég er afar þakklát fyrir það og finnst þetta frábærir hópar með topp þjálfara. Ég hreinlega mætti og var tekið opnum örmum, þannig er það í nánast öllum íþróttafélögum eða hópum. Sama gerði ég þegar ég byrjaði í þríþraut. Ég "googlaði" næsta klúbb og mætti. Var reyndar of léleg til að mega vera með í fyrsta klúbbnum en sá næsti tók mér opnum örmum. Þar lærði ég allt frá gunni og eignaðist marga af mínum bestu vinum hér í London.
Við byrjum öll einhvers staðar. Reyndu að finna eitthvað sem þú heldur að þú hafir gaman af og eitthvað sem getur passað inn í þitt daglega líf hvort sem það er kraftganga í Öskjuhlíð, badminton, golf, fjallganga, hlaup, skriðsundsnámskeið eða annað. Ef þér finnst gaman þá kemur restin að sjálfu sér. Þú verður sennilega algjör byrjandi en ekki vera að spá í það og umfram allt ekki láta það stoppa þig. Þetta er alveg eins og að byrja í nýrri vinnu. Líttu á það sem ákorun og hugsaðu frekar ,,mikið er gaman að takast á við eitthvað nýtt" eða hugsaðu um hvað þú kemst í gott form og hvað þú ert í góðum félagsskap. Talaðu jafnvel áður við viðkomandi þjálfara eða umsjónarmann og spurðu hvort það sé pláss fyrir nýliða eða hvernig sé tekið á móti nýliðum. Þú skynjar strax andrúmsloftið og ef viðkomandi er áhugalaus eða ekki vingjarnlegur þá skaltu finna þér annan hóp eða tíma. Ef eitthvað passar ekki fyrir þig þá veistu það og finnur þér eitthvað annað, bara ekki gefast upp ef hlutirnir ganga ekki upp strax.