Karen Axelsdóttir - haus
Þú ert hér: Karen Axels > Sundsett
27. apríl 2010

Sundsett

FrontCrawlSwimmingHér er æfing fyrir byrjendur í skriðsundi. Ég veit við áttum að læra þetta öll í barnaskóla. Ég skil ekki hvað hefur gerst í sundkennslu í grunnskóla því einhverra hluta vegna erum við sem höfum aldrei æft sund upp til hópa glötuð þegar kemur að skriðsundi.  Þetta er skiljanlegt hér í Bretlandi þar sem fólk fer almennt ekki í sund og ekki skylda í skólum en hér heima með vikulega sundkennslu, allar þessar laugar og frábæru aðstöðu þá finnst mér þetta athyglisvert. Ég man t.d að það var einhvern veginn fyrir fram ákveðið meðal flestra minna bekkjarfélaga að það væri leiðinlegt í sundi og þar af leiðandi hlustaði maður aldrei neitt á annars yndislegan sundkennara. En þegar viðhorfið og einbeitingin er ekki á réttum stað þá er alveg eins hægt að pakka saman. Ég bið gömlu kennarana mína þau Lindu, Þórð og Ernu hér með afsökunar á þessari vanvirðingu.

Ef þú kannast við lýsinguna að ofan þá skalltu ekki  eyða tímanum í á tækla sundið ein/n. Drífðu þig á námskeið eða fáðu leiðsögn svo þú sért amk að æfa rétt sundtök. Þríþrautarfélg Reykjavíkur er með æfingar í laugum þar sem 1-2 brautir eru helgaðar byrjendum og svo eru sundfélögin reglulega með námskeið. Þegar þú ert komin áleiðis þá mæli ég einnig með garpahópunum sem eru með æfingar út um alla borg. Fáðu upplýsingar í hverfislauginni þinni eða farðu á netið. Einnig er fullt af hópum sem hittast ókeypis (borgar ofan í laugina) og ég rakst t.d á Sundfélagið Styrmi og fleiri slíka hópa á netinu. Fyrir krakka, unglinga eða þá sem stefna á að keppnir þá myndi ég mæla með að æfa með sundfélagi.

Æfing fyrir byrjendur (850 metrar)

Upphitun (150 m ) 50 m bringusund 25 m rólegt skriðsund, 50 m bringusund, 25 m baksund

Skriðsundsfótahreyfingar 4 X 25 m. Þú getur notað kork til að halda þér í . Ef þú notar blöðkur skalltu gera 6 x 25 m.

Aðalsett 4 X 100 m. Hvíld 30 sek á milli. Ef þú átt erfitt með þetta geturðu notað blöðkur fyrir hluta eða allt settið. Mundu að  blöðkur eru ekki leyfðar í keppni þannig ekki verða of háð/ur þeim. Ef þetta er ennþá of erfitt þá geturðu stytt settið niður í 2 x 100 þangað til þú ert  búin að byggja þig upp. Ef þetta er of létt þá skaltu gera 6 x 100 eða 8 x 100 m. Þú getur einnig stytt hvíldina niður í 15 sek eða hreinlega tekið meira á því.

Sprettir 4 X 25.  Hvíldu 30-45 sek á milli. Ég hef hvíldina langa þannig taktu vel á því en ekki drekka laugina :-)

Kæling 100 m. Mjög rólega. Andaðu/blástu frá þér ofan í vatninu þannig þú sért eingöngu að draga inn andann þegar þú snýrð höfðinu en margir byrjendur reyna að gera bæði í einu og fá því köfnunartilfinningu um leið.

Ég syndi sjálf 3 x í viku og þá oftast 3000-3500 metra.  Atvinnumenn í þríþraut eru að synda 4500-5000 metra 6 x í viku.