Í gær var æfing með ensku "youth" akademíunni eru það eru unglingar 15-21 árs í afreksprógrammi Englands sem koma saman eina helgi í mánuði og æfa með okkur. Þetta eru allt afburða íþróttamenn ýmist í eða á leiðinni í atvinnumensku. Ég er venjulega á hliðarlínunni í sundinu og þjálfa með James en í þetta skiptið vildi hann láta mig æfa með þeim. Við vorum komin ofan í stöðuvatnið kl 07:00 og settið var 8 x 400 m. Hægasti sundmaðurinn í þessum 30 manna hópi syndir 400 m á 5:15 sem er fyrir þá sem ekki skilja sundtíma fáranlega gott mv. að sundæfingar eru bara brot af öðrum æfingum hjá þeim. Ég er ágæt í blautbúning og var að skrölta þetta á 5:45. Það er aldrei gaman að vita að heill hópur sé að bíða eftir manni en ég var varla komin til baka eftir hvert sett þegar James gaf okkur 15 sekúndur til að fara að stað aftur sem þýddi að hinir fengu í þokkabót að hvíla sig margfallt lengur en ég. Mér leið nú bara eins og á flugsundsæfingunni um daginn. Þegar maður fær svona tilfinningu þá er auðvellt að fara að hugsa of mikið um hina , bera sig saman og missa alveg dampinn. Það kannast allir íþrótta menn við þetta, hvort sem þú ert að tapa badminton leik, komin 3-0 undir í fótboltaleik eða að gera í buxurnar á æfingu.
Á svona stundum verðurðu að reyna að hugsa bara um þig og í stað þessa að gefast upp, hugsa ok nú legg ég allt í þetta og verð að lágmarka skaðann. Í svona stöðu fer maður líka oft að leita að afsökunum, jafnvel afsökunum til að draga sig í hlé því það er auðvitað auðveldara að "losna".
Þegar við komum uppúr fórum við beint á hjólið þar sem hjólaðir voru 4 km "maximum effort" og svo hlaupið 3 mín á keppnishraða og það endurtekið fjórum sinnum. Dæmið var fljótt að snúast við. Á þessum 4 km náði ég góðu forskoti á hina og ekki sjéns að fyrir þau að ná mér á 3 mín löngu hlaupi. Í pásunum á milli rigndi yfir þjálfarann kvörtunum..mér er illt í hnénu, bremsurnar rekast í dekkið, ég gleymdi að borða eftir sundið og bara nefndu það.
Munurinn á reyndari íþróttamönnum og þeim yngri er gjarnan einmitt þessi. Við missum öll dampinn við svona aðstæður en þeir eldri og reyndari eru mun fljótari að brjóta sig út úr mynstrinu og bíta á jaxlinn. Hann benti þeim á að ef einhver hefði átt að skæla þá hefði verið ég þarna ofan í stöðuvatninu. Þó ég segi sjálf frá þá var ég ótrúlega ánægð með mig að ná að halda haus. Ég missti dampinn en það varði bara í nokkrar sekúndur í stað þess að missa hann "alveg" og rústa allri æfingunni. Góð lexía sem kvatti mig að leggja mig meira fram í sundinu en sýndi mér líka að maður má aldrei gleyma að horfa á heildarmyndina og styrkleika sína þegar illa gengur í einu. Þetta á ekki bara við íþróttir heldur lífið í heild hvernig sem þú túlkar það.