Núna er HM yfirstaðið og eftir sitja mjög blendnar tilfinningar. Ég er búin að vera í fanta formi og ekki ögn af neikvæðu stressi. Ég get því ekki lýst vonbrigðunum þegar ég vaknaði með eyrnabólgu oghósta á föstudags morgun. Spenningurinn hjálpaði mér að halda haus og ég var þrátt fyrir allt bjartsýn um að vakna hress á keppnisdag. Því miður rættist sá draumur ekki . Ég var hóstandi vinstri hægri og jafnvægisskynið ekki í lagi. Hafði lítinn kraft og fór þetta fyrst og fremst á þrautseigju, reynslu og þrjósku frekar en hæfileikum og krafti.
Sundið
Sundið sem venjulega er hálfgjör upphitun reyndist mér mjög erfitt. Vatnið var óvenju kalt sem hjálpaði ekki og mér leið eins og ég væri með kodda fyrir vitunum. Þurfti endurtekið að taka nokkur bringusunds tök til að hósta og ná andanum. Tíminn 23:45 var í raun ásættanlegur miðað við það, en mér hefur farið mikið fram á undanförnum vikum sem kom í veg fyrir afhroð þrátt fyrir bringusundið inná milli. Ég var samt að eyða mikilli orku og tapa niður alltof miklum tíma, en keppendur sem vinna venjulega á mig 1-2 mín í sundinu í keppnum hér í UK voru að vinna á mig tæpar 4 mínútur.
Skiptingar
Skiptisvæðin voru ekki eins löng og búið var að segja, kanski 400-450 metrar sem er vel sloppið á svona stóru móti.Skiptingarnar gengu vel og ég vann upp einhver sæti. Svæðið var einn leðjupollur eftir rigningarnar daginn áður og það var drepfyndið að sjá hvað sumir keppendur voru skítugir.
Hjólið
Ég var svo ringluð eftir sundið að ég komst hreinlega ekki í skóna á ferð. Þurfti því að stoppa til að ná smá áttum og klæða mig í ...eitthvað sem ég hef aldrei þurft að spá í og geri alltaf á fullri ferð. Mjög spes að standa þarna úti í kanti eins og aumingi og það á heimsmeistaramóti en það hvarflaði samt ekki að mér að slá slöku við. Hóstinn skánaði á hjólinu, mér fór að líða aðeins betur eftir fyrsta hringinn og tók jafnt og þétt fram úr eftir því sem leið á. Völlurinn var bara 35.6 km, sem sagt enn styttri en búist var við og það hjálpaði mér auðvitað ekki þar sem ég vinn alltaf upp mestan tíma á hjólinu. Samkvæmt reglum alþjóðaþríþrautarsambandsins mega frávik á völlum ekki vera meiri en 5% í hverri grein þannig það verður áhugavert að sjá hvernig þeir tækla það. Lappirnar á mér voru í topp standi eftir hjólið og ég fann lítið fyrir þreytu í þeim enda stuttur og flatur hjólavöllur og ég þurfti oft að halda aftur að mér til að lenda ekki í tímasekt við það að taka fram úr. Það er skylda að halda 10 metra bili milli hjóla á alþjóðlegum mótum og þú getur ekki tekið fram úr nema gera það á innanvið 15 sekúndum. Það gerir framúrtöku erfiða á flötum völlum með miklu fjölmenni því oft gefur viðkomandi í þegar þú nálgast hann og þá lítur það út eins og þú sért að hanga í honum og þú getur fengið 2 mín tímasekt sem bætist við tímann þinn. Hjólatíminn var 54:35. Ég veit ekki alveg hvernig hjólatímann minn rankaði en ég náði vinna mig úr 12 sæti niður í 5 sæti í mínum flokk eða úr 131 sæti í heildina og niður í 27 sæti. Sem sagt 104 sæti sem ég vann upp þar.
Hlaupið
Venjulega finnst mér ég vera þindarlaus og finn ekki fyrir önduninni á hlaupinu en á sunnudaginn fékk ég innsýn í hvernig reykingarfólki hlýtur að líða. Lappinar voru game en lungun gáfu sig og þetta snérist uppí rústarbjörgun frekar en að ná þeim sem á undan voru. Ég náði varla andanum og hljóp því miður langt undir eigin getu eða á 41:28 fyrir nákvæmt 10 km split í stað 39:05 eins og venjulega eftir hjólið. Það kostaði mig 9 sæti í heildina þannig lokaniðurstaðan varð 6 sæti í mínum flokk af 79 og í heildina 34 sæti af 501 konu sem luku þátttöku. Heildartími 2:04:13.
Auðvitað var ömurlegt að þurfa að keppa við þessa heilsu og ég veit ekki alveg hvernig ég á að lesa í þetta. Flestir keppendur væru hoppandi ánægðir með þetta sérstaklega í ljósi þess að 7. fremstu sætin í heildarkeppninni voru skipuð full time atvinnumönnum en mér finnst þetta engan veginn nógu gott. James sagði mér á að bera mig saman við keppendur sem ég þekki vel og keppi við reglulega. Miðað við það þá var ég 2-3 mínútum á eftir nokkrum keppinautum sem ég hef ekki tapað fyrir í allt sumar. Sú sem var í þriðja sæti á mínum flokki er stelpa sem ég vinn venjulega með 3 mínútna mun í ólympískri vegalengd og sú sem var í 11 sæti í heildina er stelpa sem ég vann með 35 sek mun á breska meistaramótinu núna í ágúst. Ef ég horfi á þetta þannig þá á ég bara að brosa hringinn og vera ekki að spá í þetta en það er samt erfitt að horfa á hlutina í öðru samhengi og sjálf sagt endalaust hægt að leika sér með tölur. Ég get amk sagt ykkur að ég gerði mitt allra besta miðað við ástandið og það kemur mót eftir þetta mót. Það kom aldrei neitt annað í hugann annað en að þrauka og ég má teljast heppin að ná þó 6 sætinu en það voru heilar 4 sekúndur sem skildu að 4 og 6 sætið. Búdapest er gríðarlega falleg borg og það jafnaðist fátt á við það að hlaupa yfir marklínuna með þúsundir hvetjandi áhorfendur. Stuðningurinn af mannfjöldanum var magnaður og bæði það og að sjá Gunna þarna með reglulegu millibili var dásamlegt. Ég er afar þakklát fyrir þetta tækifæri að keppa fyrir Íslands hönd. Sérstakar þakkir fá TYR áÍslandi fyrir að gefa mér íþróttagalla og þeir fjölmörgu sem hafa sent mér falleg skilaboð á undanförnum dögum. Myndir koma á morgun.