27. september 2010
Fólk spyr mig hvort það sé ekki mikill léttir að vera búin með tímabilið og hvort nú eigi ekki að slaka rækilega á. Þetta er sem betur fer ekki eins og að klára próftörn í skóla þar sem þú þolir ekki námsefnið og vilt helst aldrei sjá það aftur. Vissulega geta æfingarnar verið hræðilega erfiðar, ég er vaknandi kl 5:30 á köldum vetrarmorgnum, helgarnar eru undirlagðar keppnum og félagslífið oft á hakanum. Vinnan mín er krefandi og það er meira en að segja það að hugsa um hóp af fólki og þurfa að gefa mikið af sér þegar maður sjálfur er að keppa og hugsa um fjölskyldu. En ykkur að segja þá myndi ég ekki vilja breyta neinu og fyrst og fremst er það ánægjan sem drífur mig áfram á öllum vígstöðum. Ef þú ert að gera eitthvað sem þú hefur gaman af þá flýgur tíminn og árangurinn kemur að sjálfu sér. Ég ætlaði mér aldrei þessa leið í lífinu og var ein af þeim sem hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Það eina sem ég var búin að komast að um þrítugt þá útlærð með rándýrt masterspróf var að það að vinna rútínustarf lokuð inni allan daginn var sennilega það sem ég óttaðist mest. Það að ég skildi af rælni fara þessa leið er sennilega meira tilviljun en nokkuð annað. En ég tók áhættuna og fór þá leið þó það hefði verið miklu auðveldara til að byrja með að sækja um starf og vinna við það sem ég lærði og hafði reynslu af. Við erum flest alin upp í hálfgerðu boxi, förum hefðbundar leiðir og endum í rútínu sem færir okkur ekki hamingju. Hver segir að lífið þurfi að vera þannig? Hver er þín ástríða? Hvernig geturðu gert það að lífsstarfi eða fundið þá leið sem þú vilt fara? Ég er búin að finna mína hillu og ætla mér að starfa við íþróttina í framtíðinni og hjálpa öðrum hvort sem það er að þjálfa, reka þjálfunarbúðir, byggja upp íþróttina, halda fyrirlestra osfrv. Ég vinn óhefðbundinn vinnutíma, skipulegga mínar æfingar og keppnir sjálf og ég vel sjálf hvenær ég er í fríi og hvenær ekki. Mér finnst þetta draumur og mín von er að sem flestir upplifi þessa tilfinningu. Ein besta aðferðin til þess er að þoka sér nær því sem mann langar til að starfa við eða upplifa er að setja sér markmið. Það er endalaus ytra áreiti og samfélagsleg pressa sem heldur manni gjarnan í sömu rútínunni en markmið fá mann til að marka stefnuna skýrt og taka skref í þá átt sem mann sjálfan langar að fara. Ég skal að spjalla meira um markmið á næstunni til að hjálpa þeim sem mikla það fyrir sér að setja sér markmið ...og fyrir þá sem halda að markmið eigi bara við keppnisfólk eða fólk á framabraut.