Hlauparar, hjólreiða- og þríþrautarfólk eru þessa dagana í undirbúningstímabili fyrir næsta sumar. Þetta er svona eins og upphitun sem stendur fram í nóvember þar sem æfingar snúast fyrst og fremst um að laga tæknina, lyfta og chilla :-) Í desember - febrúar förum við svo að byggja upp úthald og frá og með mars færist áherslan yfir í keppnisundirbúning. Það þýðir almennt talað meiri hraðaæfingar fyrir þá sem eru í styttri vegalengdum og meiri vegalengdir fyrir þá sem eru í lengri vegalengdum. Ég skal koma með tips fyrir sund, hjól og hlaup eftir því hvað hver og einn vill leggja áherslu á á þessu tímabili og byrja á sundinu.
NB! Það er afar mikilvægt að byrjendur missi ekki af þessu tímabili því ef þú byrjar t.d í desember þá eru æfingarnar strax orðnar erfiðari og minni fókus á tækni. Byrjendur í hlaupum geta notið þess að hlaupa mjög stuttar vegalengdir og taka sér göngupásur þegar þörf er á. Mest áhersla á að vera á hlaupastíl, ná skrefhraðanum upp í amk 85 helst 90 skref á mínútu (talið með annarri), styrkja kviðvöðva, grindarbotnsvöðva og rassvöðva. Ef þessir hlutir eru ekki í lagi þá verður eftirleikurinn mun erfiðari. Byrjendur í þríþraut ættu að fara á skriðsundsnámskeið eða fá einhvern sem veit hvað hann/hún er að gera til að kíkja á sig og helst taka uppá video. Að öðru leyti skaltu dreifa þeim tíma sem þú hefur vel á milli greinana. Lengra komnir taka gjarnan fyrir eina grein (gjarnan veikustu greinina) og stunda hinar tvær 1 x - 3 x í viku hverja grein til viðhalds. Persónulega mæli ég ekki með að sleppa alveg einni grein á þessu tímabili meðan verið er að fókusa á annað heldur myndi alltaf gera amk eina vikulega æfingu í hverri grein til að missa ekki "touchið".
Njóttu þessa tímabils í botn. Núna er tíminn til að spjalla við félagana á æfingum, taka kökustop í hjólatúrum, rækta félagslífið og jafnvel prófa aðrar íþróttagreinar. Æfingarnar eiga að vera auðveldar og ef þú ert með æfingaleiða þá er það einfaldlega af því að þú tókst þér ekki nógu langt frí eftir keppnistímabilið. Ég ætla ekki að byrja aftur fyrr en í næstu viku og tek því samtals fjórar vikur í frí frá hefðbunum æfingum. Ég hlakka til að byrja aftur en ég gekk of nærri mér í Búdpest og ætla að því að taka eina viku í viðbót. Ég hefði auðvitað aldrei keppt lasin nema af því að þetta var heimsmeistaramót og ég vissi að ég gæti náð langt..en þetta er ekki þess virði og ég geri þetta aldrei aftur sama hversu langur undirbúningur liggur að baki eða hversu mikilvægt mótið er. Venjulegt fólk getur kanski ekki sett sig í þessi spor, en þegar þú ert búin að leggja allt undir í heilt ár og komin á hólminn þá er bara eins og einhver öfl taki við og almenn skynsemi fer út um veður og vind.