Reykvíkingar eru gjörspilltir með alla þessa stíga meðfram strandlengjunni sem víðast hvar er núna búið að breikka :-) Af hverju ekki að nota dagsbirtuna um helgar og taka góðan hring í kringum ströndina eða uppí Heiðmörk. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvernig hjól þú átt. Ég t.d fékk lánað körfuhjól með fótabremsum og tók tvær hjólaæfingar á stígunum í sumar. Svo lengi sem það er ekki hálka eða úrhellisrigning þá kýs ég amk að vera utandyra um helgar.
Ef þú vilt verða góður hjólreiðamaður þá er engin spurning að nýta sér æfingar sem Bjartur http://bjartur.c.is/, HFR http://hfr.is/, Hjólamenn http://hjolamenn.blogspot.com/, Þríþrautarfélögin og fleiri bjóða uppá. Byrjendur eru hjartanlega velkomnir, sendu bara email áður til að fá aðstoð og láta vita af þér.
Farðu í spinning eða notaðu þrekhjól í rækti nni. Ég er sjálf lítill spinningaðdáandi en það er einfaldlega að því að mér blöskrar að sjá hvað fólk þjösnast mikið á hjólunum og líka af því að ég hef oftast aðgang að turboþjálfa. Ég hef farið í fjölmarga tíma en það er alltaf sami þjösnaskapurinn. Kennarinn öskrar þyngja svona 50 sinnum en samt virðast flestir geta snúið hjólinu ca 120 snúninga á mínútu. Þú nærð miklu meiri styrk með því að vera agaður og skiptast á að hjóla í léttum gír og þungum gír á víxl eftir því hvað er verið að æfa. Ekki hreyfa efri líkamann nema þú sért í klifurstöðu og hættu öllu hossi. Ef þú ferð eftir þessu og lærir að nota púlsmæli þá geturðu nýtt þér spinning tíma á mjög markvissan hátt. Keyptu þér notað þrekhjól eða turboþjálfa (sjá mynd ). Ég væri ekki í fremstu röð ef ég ætti ekki svona turboþjálfa sem gerir mér kleift að hjóla heima hjá mér og á mínu eigin hjóli. Ég þekki hreinlega engan góðan hjólreiðamann sem ekki á turboþjálfa. Gargandi snilld ef maður er tímabundinn, á börn eða býr við blauta eða kalda vetur. Engin afsökun vegna tímaskorts og líka miklu betra að geta æft á eigin hjóli sem er alltaf rétt stillt. Ef það er ekki hraða eða watt mælir á turboþjálfanum þá er vel þess virði að fá sér lítinn ódýran hraðamæli á hjólið og nota púlsmæli samhliða. Ég skil vel að þetta hljómi ekki spennandi en ef þú notar DVD t.d spinnevals, hlustar á hljóðbók, tónlist eða ferð eftir prógrami þá er þetta alveg málið. Fyrir mjög vana hjólreiðamenn þá er ekkert sem jafnast á við það að hjóla á rúllum (e. roller sjá rúllumynd). Í raun er þetta besta kennslu tæki sem til er til að ná fullkominni hjólatækni. Gallinn er samt að þetta er hættulegt fyrir óvana og ég myndi aldrei setja byrjanda á þetta nema hafa sitt hvora hástökksdýnuna við hliðin á þeim sem er að hjóla. Þú kemst ekki upp með neinar rykkjur eða óþarfa hreyfingar án þess að fljúga af, þetta gjörbreytir jafnvægisskyninu og þú þarft að hafa einbeitinguna í lagi. Maður kemst samt fljótt uppá lagið og ég stefni á að hjóla amk 1-2 tíma á viku í vetur á rúllum.