Ég keppti á London League stigamóti í morgun. Þetta var skrítinn dagur. Við áttum að vera 5 saman að keppa fyrir Optima Racing Team en unglingurinn okkar í liðinu, 16 ára strákur var bráðkvaddur á föstudaginn. Meðfæddur fæðingargalli segja læknarnir og það var ekkert hægt að gera. Enginn fyrirvari, eldhress á leiðinni heim og á einu augnabliki var allt búið. Við höfðum eðlilega hvorki erindi og né vilja til að fara á þetta mót í dag en faðir Rory eins stráksins í liðinu hringdi í mig í gær og spurði hvort ég gæti ekki farið og keppt með honum til að létta okkur báðum lundina og koma honum út úr húsi. Ég er búin að vera svo dofin og leið yfir þessum fréttum að ég veit ekki alveg hvernig ég komst á mótsstað með allt dótið með mér en sem betur fer vildi litli gaurinn minn endilega koma með og mér tókst inná milli að gleyma stað og stund með hann brosandi mér við hlið.
Ég sá að Rory sem er bara 18 ára var ekki í góðu ástandi en ég reyndi að peppa hann upp og áður en varði vorum við komin ofan í vatnið. Ílan fór í gang og slagurinn á 550 m sundlegg hófst. Rory kom fyrstur uppúr vatninu og ég fjórða konan. Hef oft séð það svartara en fremstu menn eru að synda 400 m á undir 5 mínútum þannig ekki mikill sjéns fyrir mig þar og bara spurning að lágmarka skaðann og halda hausnum í lagi. Þetta er líka erfið hlaupa og hjólaleið þannig ekkert áhyggjuefni þó ég missi 1-2 mínútur. Skiptingin gekk brösulega. Ég missti sundgleraugun á miðri leið að skiptisvæðinu og þurfti að hlaupa til baka um 50 m til að sækja þau þegar einn vörðurinn benti mér á það en hér á sumum mótum ertu dæmdur úr leik fyrir að skilja dót eftir á brautinni. Við það fóru þrjár konur fram úr mér og ekkert við því að gera. Ég er kanski ekki með mikinn hraða í líkamanum þessa dagana en góðu fréttirnar eru að ég er þindarlaus og algjör harðhaus þannig að undir lok 6,5 km hlaups þá var ég komin í annað sætið. Ég elska velli þar sem keppendur mætast á einhverjum tímapunkti því um leið og maður mætir öðrum þá er auðvelt að reikna nákvæmlega hversu mikið forskotið er. Þegar ég kom á hjólalegginn sem var 24 km og mjög hæðóttur sá ég eftir 5 km að Rory var enn fyrstur (í þessu móti er einhverra hluta vegna hlaupið á undan hjólinu ). Fyrsta konan var rétt á eftir honum amk 800 metra á undan mér og hún leit mjög sterklega út. Ekki alveg málið að vinna það upp því ég fann að lappirnar voru blýþungar og ég langt frá mínu besta standi. En það var eitt á hreinu. Við vorum ekki mætt til að gefa neitt eftir, sérstaklega ekki við þessar aðstæður. Varatankurinn yrði dreginn upp og hann kláraður. Ég náði fremstu konu eftir 10 km en gerði taktísk mistök að safna ekki aðeins orku 10 m fyrir aftan og stinga svo af. Áður en varði vorum við komnar í eilíft ping pong um forystuna. Ég braut hana á hæðunum en hún dúkkaði alltaf upp aftur á flatlendinu. Síðustu 2 km voru svakalegir. Við vorum hlið við hlið að berjast eins og ljón þangað til hún sprakk þegar 400 metrar voru eftir. Það gerði sigurinn sætari að hún er núverandi breskur meistari í ólympískri vegalengd í flokki áhugamanna (ég keppti ekki í ár þar sem Ironman Austria var helgina eftir). Rory missti einn fram úr sér og náði öðru sætinu sem er ótrúlegt fyrir 18 ára strák innan um alla þessa reynslubolta. Það var yndislegt að geta brosað saman eftir öll tárin og mjög súr-sætur dagur fyrir okkur bæði. Tryggvi litli var í essinu sínu og gargaði manna hæst á eftir mömmu. Eftir stendur minning um góðan vin og það að muna að njóta hvers einasta dags.