Það var aðeins meira mál en mig minnti að pakka fyrir heila fjölskyldu, allri æfingabúslóðinni og tveimur hjólum. Ég kvaddi liðið mitt í gærmorgun. Það var leiðinlegt að yfirgefa þau þar sem við erum nýbúin að missa Jack og allir hafa átt erfitt uppdráttar. En sem betur fer eru þau flest að fara eitthvað í sumarfrí og ég er mjög spennt að eyða næstu vikum á Íslandi.
Sonurinn tilkynnti mér í vikunni að hann hefði ekki lengur áhuga á fótbolta heldur vildi núna fókusa á þríþrautina (vá hvað mér er að takast vel til með uppeldið, nú er bara að vinna í dótturinni). Það þýðir að ég gat ekki sagt nei við hann þegar hann bað mig að pakka hjólinu sínu og þurfti því að skera verulega niður eigin búnað því dótið sem fylgir tveimur þríþrautarbullum er ekki lítið. Tollararnir ranghvolfðu augunum þegar þeir sáu mig með allt hafurtaskið og létu mig lista upp innihaldið til að tryggja það að hjólagræjurnar fari aftur úr landi. Frekar fyndið að vera þarna bakvið hjá tollurnum eins og versti glæpon fylllandi út pappíra með dóphundinn þefandi af mér á meðan.
Það að finna loftið í Keflavík var engu líkt og æðislegt að sjá pabba. Ég krassaði reyndar algjörlega við heimkomuna enda erfið æfingavika að baki og mikið í gangi. Nú tekur við að koma mér upp góðri aðstöðu hér heima, finna góðan íþróttanuddara og sjúkraþjálfara. Öll hjálp er vel þegin. Ég þarf að gera talsvert að æfingunum innandyra, helst í heitu herbergi til að aðlagast hitanum og rakanum sem verður á Hawaii. Ég ætla að tala við þá í Laugum og sjá hvort þeir geti aðstoðað mig og leyft mér að setja upp hjólið þar og svo við þríþrautarfélagið, Ægismenn og Syndaseli hvort ég megi synda með þeim. Ég veit mig mun ekki skorta góða æfingafélaga og þekki orðið okkar helstu sund, hjóla og hlaupakempur þannig þetta verður alveg skothelt og ég hlakka mikið til. Á morgun er svo Íslandsmeistaramótið í ólympískri þríþraut í Hveragerði þannig nú hefjast neyðaraðgerðir í því að safna orku því ég er einu orði sagt grilluð eftir vikuna. Vonandi ekkert sem góður heitur pottur og ísbað mun ekki laga.