Mistök að stöðva ekki för konungs

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. AFP

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, hefur játað að það hafi verið „rangt mat“ hjá honum að koma ekki í veg fyrir að konungshjónin færu í frí til Grikklands meðan á nokkurs konar útgöngubanni stendur í landinu.

Í Hollandi er nýgengi kórónuveirunnar næsthæst í Evrópu, um 500. Á fimmtudag var öllum veitingastöðum, kaffihúsum og börum í landinu lokað til fjögurra vikna, en forsætisráðherrann hefur sjálfur lýst því sem „hálfgerðu útgöngubanni“.

Því vakti það hneykslan margra þegar Vilhjálmur Alexander konungur flugu til Grikklands í frí á föstudag. Vegna háværrar gagnrýni flugu hjónin heim daginn eftir. Þau ferðuðust með einkaþotu og brutu engar sóttvarnareglur, en ýmsum þykir ákvörðunin taktlaus fyrir því.

Stjórnarandstæðingar í Hollandi höfðu kallað eftir því að Rutte forsætisráðherra útskýrði hvers vegna hann hefði ekki hvatt hjónin til að halda sig heima, enda er forsætisráðherrann jafnan upplýstur um dagskrá konungshjónanna og á í reglulegum samskiptum við kónginn.

„Ég var meðvitaður um fyrirhugaða Grikklandsför konungs. Mat mitt var rangt,“ segir Rutte. „Ég áttaði mig of seint á því að fríið, sem stóðs [þáverandi] reglur samrýmdist ekki fjölgun smit og hertari reglum,“ segir Rutte og vísaði til fyrrnefndra reglna sem tóku gildi á fimmtudag.

Konungurinn hefur sætt vaxandi gagnrýni í landinu fyrir að þykja úr tengslum við venjulegt fólk, en nýverið boðaði ríkisstjórnin úttekt á útgjöldum til konungsfjölskyldunnar.

Vilhjálmur Alexander konungur og Maxima drottning í síðustu viku.
Vilhjálmur Alexander konungur og Maxima drottning í síðustu viku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert