„Það er langt til kosninga“

Katrín Jakobsdóttir mætir á tólfta tímanum í Hörpu og skilar …
Katrín Jakobsdóttir mætir á tólfta tímanum í Hörpu og skilar inn framboði sínu til embættis forseta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir kveðst vera mjög bjartsýn á framhaldið. Henni gekk vel að safna meðmælendum og skilaði inn undirskriftarlista til Landskjörsstjórnar í Hörpu í dag. 

„Bara góð tilfinning auðvitað. Mér gekk vel að safna meðmælendum. Ég er búin að vera á ferð um landið og ég er búin að fá góðar viðtökur þar sem ég hef verið. Fólk mætir á fundi og það eru skemmtileg samtöl, bæði um forsetaembættið og hvað ég hafi fram að færa í það, og lýðveldið sjálft. Þannig það hefur verið einstaklega ánægjulegt,“ segir Katrín. 

Katrín mælist með um 30% fylgi í skoðanakönnunum. Er það meira eða minna en hún bjóst við?

„Ég eiginlega renndi algjörlega blint í sjóinn með þetta allt saman. Ég er í þeirri stöðu að vera þekkt, en líka í þeirri stöðu að vera umdeild, komandi af vettvangi stjórnmálanna. Þannig ég get ekki sagt annað en að mér finnist ánægjulegt að sjá hvernig fyrstu mælingar hafa verið. En um leið, það er langt til kosninga,“ segir Katrín.

Hvernig forseti verður Katrín?

„Eins og ég hef reynt að koma mjög skýrt á framfæri þá hef ég sagt skilið við stjórnmálin fyrir fullt og allt. Ég tek mér ekki leyfi frá störfum heldur geng út úr þeim.

Ég mun vera forseti sem leggur áherslu á að við verðum að standa styrkum fótum í fortíðinni til að geta tekist á við framtíðina. Þá er ég að vitna í okkar sögu, menningu og tungu,“ segir Katrín. 

Aðstæður gríðarlega mismunandi

„Ég mun setja á dagskrá þau gildi sem ég tel að við Íslendingar séum flest sammála um, lýðræði og mannréttindi. Sem er mikilvægt að standa vörð um þegar við sjáum víða grafið undan lýðræðinu. Eins réttindi sem við töldum að væru löngu komin í höfn, jafnvel tekin af fólki. Þetta er sú rödd sem Ísland á hafa bæði hér heima og að heiman. 

Ég vil beita fyrir mér að mæta ólíkum hópum því við erum að horfa á miklu fjölbreyttara samfélag en fyrir áratug. Bæði erum við með aukinn fjölda fólks af erlendum uppruna. Við erum líka að sjá tækniþróun að breyta öllu málumhverfi okkar. Bara hvað varðar þá staðreynd að við erum í margar klukkustundir á dag umkringd ensku málumhverfi. Við erum að sjá tækniþróun breyta lýðræðislegu umhverfi. 

Þannig ég held að það skipti miklu máli að forsetinn beiti sér fyrir því að mæta á þeim stað sem það er. Maður finnur það auðvitað þegar maður ferðast um landið að aðstæður eru gríðarlega mismunandi í okkar landi. Það skiptir miklu máli að við leggjum töluvert mikið á okkur til að tryggja þessa þjóðarheild,“ segir Katrín. 

Ertu bjartsýn á kosningabaráttuna fram undan?

„Já, mér finnst þetta allavega ótrúlega spennandi. Ég verð að segja að mér finnst ég fá góðar móttökur. Ég er bjartsýn á vegferðina fram undan og svo fer þetta bara eins og það fer.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert