Drjúgir í Íslendingaslagnum

Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk.
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk. Ljósmynd/Einar Ragnar Haraldsson

Þrettán íslensk mörk litu dagsins ljós er Stuttgart og Lemgo áttust við í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag. Skildu liðin með sér stigunum í 26:26-jafntefli í Stuttgart. 

Viggó Kristjánsson gerði sex mörk fyrir heimamenn en Bjarki Már Elísson gerði gott betur hjá Lemgo og skoraði sjö mörk. Elvar Ásgeirsson komst ekki á blað hjá Stuttgart. Eru liðin í áttunda og níunda sæti með fimm stig. 

Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Balingen sem mátti þola 27:33-tap fyrir Essen á útivelli. Balingen er enn án stiga eftir fjóra leiki. Janus Daði Smárason gerði eitt mark fyrir Göppingen í 27:27-jafntefli við Erlangen. Göppingen er með þrjú stig í þrettánda sæti. 

Í efstu deild kvenna vann Leverkusen afar sannfærandi 33:18-sigur á Bad Wildungen. Hildigunnur Einarsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir Leverkusen sem er í sjöunda sæti með sex stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert