Bygg sem er mönnum bjóðandi

Frumkvöðlarnir (f.v.) Braga Mileris, Hildur Guðrún Baldursdóttir og Birta Rós …
Frumkvöðlarnir (f.v.) Braga Mileris, Hildur Guðrún Baldursdóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir. mbl.is/RAX

Tveir nemar í matvælafræði við HÍ og nýútskrifaður vöruhönnuður frá LHÍ hafa í sameiningu þróað þrjár vörutegundir úr byggi undir merkinu Arctic Barley. Grunnvaran er loftpoppað bygg, Arctic Barley, sem varð þeim innblástur í bragðbætt nasl og músli; Arctic Snack og Arctic Muesli.

Braga Mileris, Hildur Guðrún Baldursdóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir eru á leið til Parísar þar sem þær tefla afurðunum fram í Ecotrophelia Europe, alþjóðlegri keppni um nýsköpun í vistvænni matvælaframleiðslu.

Bygg er 90% allrar kornframleiðslu á Íslandi, mest notað í dýrafóður en sáralítið til manneldis. Kannski verður breyting þar á í nánustu framtíð ef vöruþróunarverkefni þeirra Brögu Mileris, Hildar Guðrúnar Baldursdóttur og Birtu Rósar Brynjólfsdóttur fær brautargengi; Arctic Barley, Arctic Snack og Arctic Muesli nefnast afurðirnar og eru mönnum bjóðandi. „Algjört nammi, hollt og trefjaríkt,“ segja þær einum rómi.

Á mánudaginn bera þær góðgætið, „sextíu smekkleg smökk“, eins og þær orða það, á borð fyrir 20 dómara frá jafnmörgum löndum í Ecotrophelia, vöruþróunarkeppni háskólanema í vistvænni matvælaframleiðslu í París. Og flytja í sameiningu smátölu og sýna glærur. Keppnin er haldin í tengslum við SIAL, eina stærstu matarráðstefnu heims.

Upphaf poppsögunnar

Byggævintýrið hófst í vöruþróunaráfanga í Háskóla Íslands, sem Braga og Hildur Guðrún tóku síðastliðinn vetur. Braga er núna á fyrsta ári í meistaranámi í matvælafræði og Hildur Guðrún á lokaári til BS-gráðu í sama fagi. „Nemendum, sem skipt var í litla hópa, var gefið bygg og fyrirmæli um að nýta það með öðrum hætti en áður hafði verið gert. Eftir heilmikið hugarflug, meðal annars um byggís, datt okkur í hug að poppa byggið. Við prófuðum margar aðferðir en loftpoppun var sú eina sem virkaði,“ útskýra þær.

Loftpoppun er þó ekkert sem fólk getur gert heima hjá sér og gætt sér síðan á bygginu rétt eins og venjulegu poppkorni. „Byggið er líka ólíkt poppkorni að því leyti að það springur ekki allt út eins og maís, heldur opnast – eða poppast, aðeins lítillega. Við fengum afnot af vél sem Iðnmark notar til að loftpoppa Stjörnupopp og nutum mikillar velvildar þar á bæ sem og víða annars staðar. Til dæmis fengum við aðstöðu hjá Matís þar sem við höfum í öllu ferlinu fengið aðstoð við mælingar á næringargildi, ráðgjöf og fleira.“

Ecotrophelia-keppnin á Íslandi, sem er undanfari keppninnar í París, er að hluta á vegum Matís og Samtaka iðnaðarins. Þrír hópar tóku þátt og nutu Braga og Hildur Guðrún þess að vera lengra á veg komnar með sína vöru en hinir tveir. Framleiðsluaðferðin lá enda fyrir sem og markaðsáætlun og hugmyndir að frekari þróun vörunnar.

Vöruhönnuður kemur til skjalanna

Sigurvegarana vantaði samt liðsauka til að halda starfinu áfram. „Einhvern sem kæmi með annað sjónarhorn og gæti hannað umbúðir, lógó og þess háttar,“ segja þær. Birta Rós, nýútskrifaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands, kom inn í myndina strax eftir keppnina. „Við eiginlega stálum henni, því hún var í öðru liði,“ segja Braga og Hildur Guðrún nokkuð hróðugar.

Þróunarvinnan fór á fullt skrið. Þær stöllur hafa í sumar prófað alls konar hráefni til að búa til nýja vörutegundir úr þeim grunni sem þær höfðu þegar þróað; loftpoppuðu byggi. Mörgum finnst gott að borða það eitt og sér eða bæta því í salöt eða hvaðeina sem þeir ella hefðu kannski bragðbætt með hnetum eða fræjum. „Mjög hentugt fyrir þá sem eru með hnetuofnæmi,“ benda þær á.

Stundum gerðu þær stöllur alls konar tilraunir í sameiningu, eða hver hjá sér heima og báru síðan saman bækur sínar. Afraksturinn er Arctic-snarl og Arctic-múslí til viðbótar við loftpoppaða byggið. Allt saman í listrænum og vistvænum búningi Birtu Rósar.

„Þar sem byggið er hollt og trefjaríkt vildum við að vörurnar væru það líka og stæðu undir því að vera markaðssettar sem heilsuvara. Einfaldar, næringarríkar og góðar á bragðið, að mestu framleiddar úr íslensku hráefni og á vistvænan hátt.“

Súkkulaði og frostþurrkaður rabarbari

Snarlið er hugsað sem millimál, bragðbætt með sölum, þurrkuðum eplum og kókósflögum. Í múslíinu er dökkt súkkulaði og frostþurrkaður rabarbari. „Ljómandi gott með jógúrt svo dæmi sé tekið,“ segja þær og bæta við að hráefnið hafi verið valið eftir tilraunir með ýmislegt annað, svo sem þurrkað mangó, perur og banana.

Uppistaða afurðarinnar, sjálft byggið, er ræktuð á Þorvaldseyri, litlu býli undir Eyjafjallajökli. Upprunans er getið á umbúðunum, enda jökullinn víðfrægur og sem slíkur tilvalinn til markaðssetningar að þeirra mati. Ekki aðeins er byggið í öllum þremur útfærslunum vistvæn framleiðsla, heldur líka umbúðirnar. „Byggið er í brúnum pokum úr pappír og sterkju, sem brotna niður í náttúrunni, og blekið er sömuleiðis náttúrulegt. Ef varan fer í framleiðslu langar okkur að nýta hirsið sem til fellur við vinnsluna í umbúðir. Við vorum svolítið að prófa okkur áfram en vannst ekki tími til að þróa verkið til fulls fyrir keppnina,“ upplýsir Birta Rós.

Heilsufæði sem bragð er að

Undanfarið hafa þær einbeitt sér að undirbúningi fyrir keppnina og fara bara að hlæja þegar þær eru spurðar hvort markmiðið sé að stofna raunverulegt fyrirtæki og gerast umsvifamiklir framleiðendur og atvinnurekendur. „Við erum ekki komnar svo langt. Hugmyndin er spennandi og skemmtileg en fyrst þurfum við að minnsta kosti að ljúka námi,“ segja Braga og Hildur Guðrún. „Þátttaka í keppninni getur opnað möguleika á að fjárfestar sjái sér leik á borði en annars bindum við mestar vonir við að fá styrki úr ýmsum sjóðum til frekari þróunar. Okkur liggur ekkert á. Þetta er engin tískuvara heldur sígilt heilsufæði sem bragð er að,“ segja þær.

Uppistaðan í vörunni er loftpoppað bygg.
Uppistaðan í vörunni er loftpoppað bygg.
Byggið er ræktað á Þorvaldseyri.
Byggið er ræktað á Þorvaldseyri.
Þrennan. Loftpoppað bygg og tvær tegundir af bragðbættu loftpoppuðu byggi.
Þrennan. Loftpoppað bygg og tvær tegundir af bragðbættu loftpoppuðu byggi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert