Systrum rænt í Noregi

Systurnar Somaja, 8 ára, og Rajana, 6 ára, voru á …
Systurnar Somaja, 8 ára, og Rajana, 6 ára, voru á leið heim úr skólanum þegar þeim var rænt.

Tveimur ungum stúlkum, 6 og 8 ára, var rænt á heimleið úr skóla í Noregi í dag. Lögreglan grunar föður þeirra um aðild að málinu. Systurnar eru af tsjetsjenskum uppruna og bjuggu á fósturheimili.

Þær Rajana og Somaja Dudaeva fóru með skólabílnum heim úr grunnskólanum í Kongsvinger í Austurmörk síðdegis í dag, eins og venjulega. Fósturforeldrarnir biðu þeirra í strætóskýlinu, en skyndilega var silfurgráum jeppling ekið að skýlinu. Tveir grímuklæddir menn gripu stúlkurnar og óku með þær burt.

Aftenposten hefur eftir lögreglumanninum Iren Johnsen Dahl að blóðfaðir stúlknanna hafi verið á staðnum og hindrað fósturforeldrana í að bjarga stúlkunum. Hann hafi síðan hlaupið burt.

Fram kemur á vef Aftenposten að í ljósi þess að þetta var aðeins 30 km frá landamærunum til Svíþjóðar sé hugsanlegt að farið hafi verið með þær úr landi. Lögreglan í Noregi hefur biðlað til almennings um að láta vita, sjáist til stúlknanna eða föðurs þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert