Yfirmaður Thomas Cook biðst afsökunar á björgunarmyndbandi

Flugvélar frá Condor og Thomas Cook á flugvellinum í Frankfurt. …
Flugvélar frá Condor og Thomas Cook á flugvellinum í Frankfurt. Myndbandið sem vakti reiði sýndi starfsfólk fagna þegar tókst að bjarga dótturfyrirtæki Thomas Cook í Þýskalandi. AFP

Yfirmaður hjá breska ferðaþjónustufyrirtækinu Thomas Cook hefur beðist afsökunar eftir að myndband fór í dreifingu sem sýndi starfsfólk fagna honum og öðrum yfirmönnum dótturfyrirtækis Thomas Cook í Þýskalandi eftir að þeim tókst að tryggja fyrirtækinu björgunarpakka.

Thomas Cook var lýst gjaldþrota á mánudagsmorgun og hefur fjöldi dótturfyrirtækja farið sömu leið. Condor, þýskt flugfélag sem var meðal dótturfyrirtækjanna, fékk hins vegar aðstoð þýskra stjórnvalda sem björguðu fyrirtækinu á meðan að flestallir aðrir starfsmenn Thomas Cook misstu vinnuna.

„Ég ætlaði aldrei  nokkurn tímann að valda sárindum eða virka tillitslaus,“ hefur BBC eftir Jean Christoph Debus, forstjóra flugfélagsins, en þýsk stjórnvöld lánuðu Condor 380 milljón evrur (tæpa 52 milljarða kr).

„Ég er miður mín að nokkrum kollega minna finnist ég hafa verið það og fyrir það biðst ég innilega afsökunar,“ sagði Debus í færslu á LinkedIn. Kvað hann myndbandið hafa verið tekið eftir að þýsk stjórnvöld tilkynntu um lánið.

„Viðbrögð mín, stjórnar Condor og starfmanna voru hreinn og klár léttir að Condor gæti haldið áfram að fljúga og að tekist hefði að koma í veg fyrir fleiri uppsagnir hjá flugfélögum fyrirtækisins. Ég átta mig hins vegar á að myndbandið birtist á óheppilegum tíma og á því  biðst ég afsökunar.“

Um 600.000 manns voru strandaglópar á ferðamannastöðum víða um heim þegar tilkynnt var um gjaldþrot Thomas Cook og talið er að allt að 22.000 manns hafi misst vinnuna, þar af 9.000 í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert