Myrða gíslana innan sólarhrings

Í myndbandinu sem birt var í gær má sjá Goto …
Í myndbandinu sem birt var í gær má sjá Goto halda á mynd af jórdanska flugmanninum. AFP

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe hefur fordæmt myndband, þar sem meðlimir Ríkis íslams hóta að myrða gíslinn Kenji Goto innan sólarhrings. Segir ráðherrann að myndbandið sé „fyrirlitlegt“. BBC segir frá þessu. 

Í myndbandinu heyrist í rödd sem talin er vera rödd Gotos. Segir hann að hann og jórdanskur flugmaður verði drepnir ef jórdönsk stjórnvöld sleppi ekki íraskri konu sem er þar fangi á dauðadeild. 

Hefur Abe sagt að japönsk stjórnvöld vinni nú að frelsun Gotos og flugmannsins með jórdönskum stjórnvöldum.  

Ríki íslams sögðu frá því á sunnudaginn að annar japanskur gísl, Haruna Yukawa, hefði verið tekinn af lífi. Samtökin hefðu krafist 2,7 milljarða íslenskra króna í lausnargjald eða 200 milljóna dollara. 

Í myndbandi sem var gefið út í gær kom fram að Goto ætti aðeins eftir sólarhring á lífi og jórdanski fanginn eitthvað minna nema konunni verði sleppt. 

Hún heitir Sajida al-Rishawi og er meðlimur í al-Qaeda. Hún hefur verið dæmd í lífstíðarfangelsi í Jórdaníu fyrir hlutverk sitt í sprengjuárás árið 2005 þar sem 60 manns létust. 

Kenji Goto er 47 ára gamall. Hann er vel þekktur í heimalandi sínu fyrir heimildarmyndir sínar og störf sem blaðamaður. Hann fór til Sýrlands í október til þess að hjálpa til við frelsun Haruna Yukawa. Í myndbandinu má sjá Goto halda á mynd af líki Yukawa. 

Forsætisráðherrann ræddi við fjölmiðla í morgun og sagði myndbandið skelfilegt. Móðir Gotos hefur opinberlega beðið forsætisráðherrann að hjálpa syni sínum. „Viltu bjarga honum,“ sagði hún. „Kenji á ekki langan tíma eftir.“

Shinzo Abe ræddi við fjölmiðla í dag.
Shinzo Abe ræddi við fjölmiðla í dag. AFP
Móðir Goto hefur beðið forsætisráðherrann um að bjarga syni sínum.
Móðir Goto hefur beðið forsætisráðherrann um að bjarga syni sínum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert