Gríðarleg sprenging í Kína

Sprengingin var gríðarleg.
Sprengingin var gríðarleg. ljósmynd/Twitter

Gríðarleg sprenging varð í kínversku borginni Tianjin rétt í þessu. Myndband af sprengingunni gengur nú um netið, en gera má ráð fyrir því að fjöldi fólks hafi slasast eða látið lífið. 

Sprengingin varð um klukkan hálf 12 fyrir miðnætti á staðartíma. Mikil höggbyglja fylgdi í kjölfarið. Talið er að olíubirgðastöð hafi sprungið.

Uppfært 18:20:

Samkvæmt kínverska fréttamiðlinum China Xinhua News hafa þegar hundruð leitað á sjúkrahús eftir sprenginguna. Talið er að hún hafi orðið í geymslurými í borginni sem innihélt sprengiefni, en það hefur þó ekki verið staðfest. Einnig er talið mögulegt að gasvinnsla eða olíubirgðastöð hafi sprungið.

Tianjin er fjórða stærsta borg Kína, en rúmlega 15 milljónir manna búa í borginni sem er í um 100 kílómetra fjarlægð frá Peking.

Fjöldi fólks hefur birt myndir og skilaboð á Twitter undir myllumerkinu #tianjin og ljóst er að áhrifin eru gríðarleg. Enn hefur hvergi komið fram hversu margir hafa slasast eða látið lífið.

Uppfært 18:44:

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins berjast slökkviliðsmenn nú við eldinn sem sprengingin olli og hefur tekist að halda honum í skefjum, en tveggja slökkviliðsmanna er saknað. 

Rafmagn fór af svæði í kringum sprenginguna, og enn er rafmagnslaust á þeim stöðum. Vitni segja sprenginguna hafa verið gríðarlega sterka, og að jörðin hafi nötrað.

Samkvæmt frétt BBC var það olíubirgðastöð sem sprakk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert