112 látnir í Tianjin

AFP

Talið er að í það minnsta 112 manns hafi fallið í sprengingunum tveimur í kínversku hafnarborginni Tianjin á miðvikudaginn, að sögn yfirvalda þar í landi.

Yfir 700 manns hafa verið fluttir á sjúkrahús vegna áverka sem þeir hlutu í sprengingunum.

Gong Juansheng, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá upplýsingaskrifstofu borgarinnar, sagði á blaðamannafundi í nótt að búið væri að bera kennsl á 24 lík. Hins vegar væri eftir að bera kennsl á alls 88 lík. 21 slökkviliðsmaður er á meðal hinna látnu, að sögn ríkisfjölmiðla í landinu.

Kínversk yfirvöld byrjuðu að rýma íbúðarhúsnæði í þriggja kílómetra radíus frá vettvangi sprenginganna í gær, laugardag, vegna hættu á efnamengun. Natríumblásýrusalt hefur fundist í jarðveginum. Þau fullyrða hins vegar að eiturefni hafi ekki borist út í umhverfið í hættulegu magni.

Í frétt AFP segir að stjórnvöldum hafi gengið erfiðlega að greina innihald efnanna sem hafa fundist í jarðveginum. Það hafi vakið ótta og tortryggni á meðal íbúa Tianjin, en þeir eru fimmtán milljónir talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert