Eigendur vöruhússins handteknir

Íbúar sem bjuggu í nágrenni vöruhússins héldu minningarstund um þá …
Íbúar sem bjuggu í nágrenni vöruhússins héldu minningarstund um þá sem létust í sprengingunni í dag. AFP

Tíu stjórnendur fyrirtækisins sem á vöruhúsið í Tianjin sem sprakk í loft upp í síðustu viku hafa verið handteknir, að sögn kínverskra ríkisfjölmiðla. Yfirvöld hafa heitið því að komast til botns í hvað olli sprengingunni sem grandaði á annað hundruð manns.

Forseti, varaforseti og fjármálastjóri Tianjin Dongjiang Port Rui Hai International Logistics Co., fyrirtækisins sem á vöruhúsið og flytur og geymir efnafræðileg efni, eru á meðal þeirra sem voru handteknir 13. ágúst og verið í varðhaldi síðan.

Að minnsta kosti 114 manns fórust í sprengingunni og 57 manns er enn saknað, að sögn yfirvalda.

Xinhua-fréttastofan segir að fyrirtækið hafi haft leyfi til að sýsla með hættuleg efni en það hafi aðeins fengið það í júní á þessu ári eftir að fyrra leyfi rann út í október í fyrra. Vöruskemman sem sprakk var tímabundinn geymslustaður fyrir efni sem komu með skipum til borgarinnar áður en þau voru flutt annað.

Mörg hundruð tonn af natríumblásýrusalti, baneitruðu efni sem getur drepið menn á skömmum tíma, voru á meðal þeirra efna sem voru geymd í skemmunni.

Frétt CNN af handtökunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert