Loka síðum sem ala á „skelfingu“

Einn þeirra íbúa sem misstu heimili sín þegar miklar sprengingar …
Einn þeirra íbúa sem misstu heimili sín þegar miklar sprengingar urðu í vöruskemmu í Tianjin grætur á mótmælum í borginni í dag. AFP

Kínversk yfirvöld hafa lokað tímabundið eða tekið niður um fimmtíu vefsíður í kjölfar sprenginganna í Tianjin í síðustu viku á þeim forsendum að þær ali á skelfingu með því að breiða út óstaðfestar fréttir af sprengingunum.

Netritskoðarar stjórnvalda sögðu á laugardag að þeir myndu ekki umbera neins konar hræðsluáróður eins og þeir kölluðu það. Orðrómar hafa gengið í Kína um að mannfallið hafi verið mun meira í sprengingunum en yfirvöld hafa viljað gefa upp, gripdeildir hafi átt sér stað í kjölfar þeirra og að glundroði ríki hjá borgaryfirvöldum.

Um miðjan dag að staðartíma í dag segja yfirvöld að 114 manns hafi farist í sprengingunum, sjötíu til viðbótar séu enn ófundir auk þess sem hundruð hafi slasast. Þúsundir íbúa í nágrenni vöruskemmunnar þar sem sprengingarnar urðu eru nú heimilislaus. 

Frétt Time af ritskoðun kínverskra stjórnvalda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert