Bjargað á lífi úr rústunum

AFP

Ungum slökkviliðsmanni var bjargað lifandi úr rústunum í kínversku hafnarborginni Tianjin þar sem eldar loga enn rúmum 36 tímum eftir að tvær öflugar sprengingar í vöruhúsi í borginni. 17 félagar hans létust við björgunarstörf en yfir 50 létust í sprengingunum.

Slökkviliðsmaðurinn Zhou Ti, 19 ára, hefur verið fluttur á sjúkrahús í Tianjin og er líðan hans stöðug samkvæmt tilkynningu frá borgaryfirvöldum sem hafa staðfest fréttir af björgun hans á samfélagsmiðlinum Sina Weibo.

Á Sina Weibo voru birtar myndir sem sýndu Zhou liggjandi á sjúkrabeði með augun lokuð og fjölmarga áverka í andliti og höfði.

Ungi maðurinn einn rúmlega eitt þúsund slökkviliðsmanna sem voru sendir á vettvang eftir sprengingarnar. Yfir 700 eru slasaðir, þar af yfir 70 alvarlega. Enn er nokkurra slökkviliðsmanna saknað.

Yfirvöld segja að Zhou sé minnislaus frá þeim tíma sem hann kom á vettvang og því er ekki vitað hvort hann var meðal þeirra sem komu fyrst á vettvang eða hvort hann kom eitthvað síðar.

Yfirmaður slökkviliðsins segir að þeir slökkviliðsmenn sem komu fyrstir á vettvang hafi verið óvarðir gegn því sem mætti þeim. Sprengingarnar voru gríðarlegar en þær urðu í vöruhúsi þar sem mikið magn eiturefna er geymt. Rúður brotnuðu í húsum í tveggja kílómetra fjarlægð frá vettvangi og á hafnarsvæðinu, þar sem vöruhúsið var, er eyðileggingin gríðarleg.

Á samfélagsmiðlum í Kína hefur aðkoma yfirvalda verið harðlega gagnrýnd og sá fjöldi björgunarmanna sem fórst við hjálparstarfið.

Eins gagnrýna bloggarar hvernig frásagnir ríkisfjölmiðla í Kína eru af hörmungum sem þessum. Þeir upphefji þá sem koma að björgunarstarfinu og sleppa því að greina frá því hvað olli hörmungunum.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert