Tóku konu og börn í gíslingu

Fjölmargir lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni.
Fjölmargir lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni. AFP

Lögregluaðgerðum í tengslum við gíslatöku í bæn­um Rou­baix í norður­hluta Frakk­lands er lokið. Breska ríkisútvarpið (BBC) greinir frá því að búið sé að frelsa gíslana. Þeir eru ómeiddir.

Allt að þrír vopnaðir menn tóku fólk í gíslingu í bænum Roubaix skammt frá landamærum Belgíu. Einn þessara manna er sagður hafa látið lífið í aðgerðum lögreglu. Þá er minnst einn sagður vera í haldi vegna málsins.

BBC greinir frá því að atvik þetta tengist ekki hryðjuverkaárásunum í París 13. nóvember síðastliðinn, en mennirnir ætluðu sér að ræna banka.

Fram kemur á fréttavef Guardian að mennirnir hafi rutt sér leið inn í íbúðarhús og tekið þar konu og tvö börn hennar í gíslingu, en annað barnanna mun vera eins árs gamalt.

Áður en til þessa kom höfðu mennirnir reynt að fremja bankarán. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni bankans voru mennirnir vopnaðir sjálfvirkum skotvopnum og skipuðu þeir bankastarfsfólki að opna peningageymslur.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvort bankastarfsmenn hafi gert lögreglu viðvart eða hvort lögreglumenn hafi fyrir slysni orðið vitni að ráninu. Það sem hefur hins vegar verið staðfest er að skotum var hleypt af inni eða við bankann og lögðu mennirnir því næst á flótta.

Eftir nokkurn eltingarleik komu mennirnir að húsi konunnar, ruddust þar inn og tóku hana og börnin í gíslingu. Um 50 manna sérsveit lögreglu umkringdi þá svæðið.

Fólkinu var síðar bjargað án meiðsla.

Fyrri frétt mbl.is:

Gíslataka í Frakklandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert