Fundu loftsteininn sem lýsti upp Sjáland

Mörgum íbúum Sjálands í Danmörku brá í brún í gærkvöldi þegar loftsteinn lýsti upp himininn í örskotsstundu auk þess sem mikill hvellur varð. Vísindamenn gerðu sér vonir um að steinninn myndi finnast og nú hefur þeim orðið að ósk sinni.

Kona í Ejby við Glostrup ætlaði í dag að fara út að reykja þegar hún kom auga á lítinn skrýtinn stein. Henni datt strax í hug að þarna gæti verið á ferðinni loftsteinninn. Hún tók því mynd af honum og sendi á Danska náttúruvísindasafnið. Sérfræðingar þar voru ekki í vafa um að þarna væri á ferðinni steinninn. 

Steinninn er aðeins 50 grömm að þyngd og þykir það ekkert sérstaklega athyglisvert. Að auki virðist sem hann sé hvorki frá tunglinu né annarri plánetu, heldur svokallaður „venjulegur kondrít.“

Það sem hins vegar gerir steininn athyglisverðan fyrir vísindamenn er hversu skammt er síðan hann lenti á jörðinni. Það þýðir að enn er talsverð geimgeislun í steininum, geislun sem hægt verður að nota til þess að greina upphaflega stærð hans og ferðalag. Verður steinninn nú sendur til Ítalíu til rannsóknar. „Við fáum allar upplýsingar um steininn í gegnum geislunina, kannski kemur eitthvað í ljós sem gerir hann einstakan,“ segir Henning Haack, lektor við Danska náttúruvísindasafnið í samtali við Politiken.dk.

Í samantekt Stjörnufraedi.is kemur fram að loftsteinar eru lítil brot úr smástirnum eða reikistjörnum á sveimi um sólkerfið okkar og steinar sem hafa fallið til jarðar.

Þeir geta verið allt frá því að vera á stærð við sandkorn upp í rúman metra að stærð. Flestir loftsteinar eru frá þeim tíma þegar sólkerfið var að myndast fyrir tæplega 4,6 milljörðum ára og því elsta bergið sem finnst í sólkerfinu. 

Sjá umfjöllun Stjörnufræði.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert