Tvö ár í fangelsi fyrir myndskreytingu

Tyrkneski fáninn á mótmælum gegn trúarlegri stjórnarskrá.
Tyrkneski fáninn á mótmælum gegn trúarlegri stjórnarskrá. AFP

Tveir þekktir tyrneskir blaðamenn hafa verið dæmdir í tveggja ára fangelsi fyrir að myndskreyta greinar sínar með myndum af Múhameð spámanni, sem fyrst birtust í franska háðtímaritinu Charlie Hebdo.

Um er að ræða pistlahöfunda stjórnarandstöðumiðilsins Chumhuriyet, Hikmet Cetinkaya og Ceyda Karan, en áhyggjur af fjölmiðlafrelsi í landinu fara vaxandi.

Bulent Utku, lögmaður blaðamannanna, segir að dóminum verði áfrýjað.

Karan og Cetinkaya voru m.a. ákærðir fyrir að hafa hvatt til haturs í samfélaginu og fyrir að hafa vanvirt trúarleg gildi.

Chumhuriyet birti fjögurra blaðsíðna aukablað frá Charlie Hebdo, þýtt á tyrknesku, til að marka fyrsta tölublað háðtímaritsins frá hryðjuverkaárásunum á skrifstofur miðilsins í fyrra.

Í aukablaðinu var ekki að finna forsíðu tölublaðs Charlie Hebdo, af tárfellandi Múhameð, en minni útgáfa teikningarinnar var að finna í Chumhuriyet, þar sem hún var notuð til að skreyta skrif blaðamannanna.

Fæstir fjölmiðlar í Tyrklandi birtu teikninguna umdeildu og forsætisráðherrann Ahmet Davutoglu fordæmdi birtingu mynda af Múhameð og sagði um að ræða hreina og beina ögrun.

Ákæruvaldið í Tyrklandi hefur rekið fjölda mála gegn Chumhuriyet en tveir yfirmanna þess hafa verið ákærðir fyrir að opinbera ríkisleyndarmál og eiga yfir höfði sér margfaldan lífstíðardóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert