Spáir stafrænni byltingu

Uppljóstrarinn komst yfir og lak 11,5 milljón skjölum frá lögmannsstofunni …
Uppljóstrarinn komst yfir og lak 11,5 milljón skjölum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca. AFP

Uppljóstrarinn bakvið leka Panama-skjalanna svokölluðu hefur stigið fram. Hann segist ekki starfa fyrir stjórnvöld eða leyniþjónustu, og neitar því að vera njósnari. Hann segir leka 11,5 milljón skjala frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca hafa hrundið af stað „nýrri, uppörvandi umræðu um allan heim“.

„Skúffufyrirtæki eru oft tengd við glæpinn skattsvik. En Panama-skjölinn sýna svart á hvítu að þrátt fyrir að skúffufyrirtæki séu ekki ólögleg, þá eru þau eðli málsins samkvæmt notuð til að fremja fjölbreytta alvarlega glæpi,“ segir uppljóstrarinn í 1.800 orða yfirlýsingu sem Guardian greinir frá.

„Ójöfnuður er eitt helsta vandamál okkar tíma,“ segir hann. Umfjöllun fjölmiðla hafi fram til þessa snúið að því hneyksli hvað leyfist og sé löglegt. „Það sem leyfist er sannarlega  hneyksli og því verður að breyta.“

Uppljóstrarinn gagnrýnir m.a. breska Íhaldsflokkinn og segir íhaldsmenn hafa dulið eigin tengsl við aflandsfélög, skammarlaust.

Hann setti sig í samband við Bastian Obermayer, rannsóknarblaðamann Süddeutsche Zeitung, í fyrra og spurði: „Hefur þú áhuga á leynilegum gögnum?“

Þýski miðillinn deildi Panama-skjölunum með alþjóðasamtökum rannsóknarblaðamanna, International Consortium of Investigative Journalists, sem veitti yfir 100 fjölmiðlafyrirtækjum aðgang að þeim.

Uppljóstrarinn segist hafa tekið ákvörðunina um að leka gögnunum frá Mossack Fonsece eftir að honum varð ljóst „umfang óréttlætisins“ sem þau vörpuðu ljósi á.

Lögmannsfyrirtæki hefur neitað að hafa gert nokkuð rangt.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, var meðal þeirra fyrstu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, var meðal þeirra fyrstu sem Panama-skjölin felldu af stóli. mbl.is/Eggert

Það vekur athygli að samkvæmt uppljóstraranum nálgaðist hann nokkur fjölmiðlafyrirtæki áður en hann setti sig í samband við Süddeutsche Zeitung, en var hafnað. Þá sakar hann Wikileaks um að hafa hunsað ábendingar um gögnin. 

Uppljóstrarinn gagnrýnir lögmannsstéttinna í yfirlýsingu sinni og segir Mossack Fonseca ekki hafa starfað í tómarúmi; fyrirtækið hefði fundið bandamenn og viðskiptamenn hjá stórum lögmannsfyrirtækjum um allan heim.

Hann fer fögrum orðum um Edward Snowden, sem hann segir eiga skilið hetjulegar móttökur, en Snowden er sem stendur í útlegð í Rússlandi.

Uppljóstrarinn gagnrýnir stjórnvöld og segir m.a. að ekki verði hægt að taka fyrir skattaundanskot í Bandaríkjunum á meðan stjórnmálamenn reiða sig á framlög frá hinum ofurefnuðu.

Hann virðist hins vegar bjartsýnn og segir að næsta bylting verði stafræn. „Kannski er hún þegar hafin.“

Uppfært kl. 16.15:

Íslenska þýðingu á yfirlýsingu uppljóstrarans má finna á vefsíðu Reykjavík Media, sem var eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem kom að úrvinnslu Panama-skjalanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert