Halda áfram heræfingar á Suður-Kínahafi

Eldur slökktur í togara á æfingu kínverskra skipa á Suður-Kínahafi …
Eldur slökktur í togara á æfingu kínverskra skipa á Suður-Kínahafi fyrir skemmstu. Stjórnvöld í Kína ætla ekki að láta úrskurð dómstólsins hindra heræfingar sínar. AFP

Stjórnvöld í Kína ætla að loka af hluta Suður-Kínahafs og halda þar heræfingar, þrátt fyrir að gerðardómstóll hafi í síðustu viku úrskurðað að enginn lagalegur grunnur væri fyrir tilkalli Kínverja til hafsvæðisins.

„Heræfingar munu verða haldnar frá þriðjudegi til fimmtudags á hluta svæðisins við austurströnd kínversku eyjunnar Hainan,“ segir á vefsíðu kínversku siglingamálastofnunarinnar þar sem tekið er fram að aðgangur sé „bannaður“.

Hafsvæðið er í nokkurri fjarlægð frá Paracel-eyjum og Spratlys-eyjum, sem Kínverjar og ýmsar nágrannaþjóðir þeirra hafa gert tilkall til.

Gerðardómur á vegum Alþjóðadómstólsins í Haag úrskurðaði í síðustu viku að Kína ætti ekki tilkall til Suður-Kínahafs. Yfirvöld á Filippseyjum, sem höfðuðu málið, fögnuðu niðurstöðu dómstólsins sem yfirvöld í Kína höfnuðu alfarið.

Úrskurður dómstólsins var ræddur á ráðstefnu Asíu- og Evrópuríkja nú um helgina, þrátt fyrir andstöðu Kínverja við að málið væri tekið þar upp. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði við fréttamenn á ráðstefnunni að ríkin muni halda áfram að hvetja til þess að alþjóðalög séu virt og bætti við að hann bæri fullt traust til gerðardómsins og úrskurða hans.

Stjórnvöld í Kína þrýstu hins vegar á ríki Suðaustur-Asíu að senda ekki frá sér sameiginlega yfirlýsingu um málið í kjölfar úrskurðarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert