Eldflaugum skotið á flugvöll

Frá Tyrklandi.
Frá Tyrklandi. AFP

Fjórum eldflaugum var skotið á Diyarbakir-flugvöll í Tyrklandi í gærkvöldi. Talið er að kúrdískir vígamenn séu á bak við árásina, en ekkert manntjón varð af völdum hennar. Tyrkneska fréttastofan Dogan News sagði frá þessu. 

Talið er að skotmarkið hafi verið bækistöðvar lögreglu fyrir utan flugvöllinn, en eldflaugarnar lentu á auðu svæði þar skammt frá. Þær ollu sprengingum sem heyrðust um alla borgina, og rúður brotnuðu í nærliggjandi byggingum. 

Farþegum og starfsfólki flugvallarins var í kjölfarið komið fyrir í öruggu skjóli inni í flugstöðinni, en að sögn Huseyin Aksoy, borgarstjóra Diyarbakir, varð engum meint af árásinni og engin röskun varð á flugi. 

Árásin kemur aðeins tveimur dögum eftir að öflug bílsprengja sprakk fyrir utan lögreglustöð í tyrknesku borginni Cizre við landamærin að Sýrlandi og Írak. Þar létust níu og 64 særðust. Kúrdískar vígasveitir eru einnig taldir vera á bak við árásina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert