Mega spyrja um hjónabönd samkynhneigðra

Stuðningsmenn hjónabands samkynhneigðra mótmæla í Sidney.
Stuðningsmenn hjónabands samkynhneigðra mótmæla í Sidney. AFP

Dómstóll í Ástralíu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hagstofa Ástralíu megi, fyrir hönd ríkisstjórnar landsins, leggja fyrir spurningakönnun þar sem almenningur er spurður álits um hvort leyfa eigi hjónabönd samkynhneigðra.

Sjö dómarar við réttinn vísuðu tveimur málum, sem ætlað var að reyna á lögmæti atkvæðagreiðslunnar, frá. Könnunin verður því send bréfleiðis til úrtaks Ástrala þann 12. september næstkomandi. Niðurstöðurnar verða birtar þann 15. nóvember.

BBC greinir frá því að könnunin verði ekki bindandi en gæti hins vegar leitt til atkvæðagreiðslu um málið í þinginu. Malcolm Turnbull forsætisráðherra, yfirlýstur stuðningsmaður hjónabands samkynhneigðra, hefur sagt að til lagabreytingar geti komið ef niðurstaða könnunarinnar sýni afgerandi stuðning. „Við hvetjum alla Ástrali til að taka þátt í könnuninni,“ sagði hann í dag.

Talið er að framkvæmd könnunarinnar muni kosta um 10 milljarða íslenskar króna og BBC segir að menn óttist hatursfullan áróður til að reyna að hafa áhrif á kjósendur. Ástralir geta svarað könnuninni til 27. október.

Fleiri virðast fylgjandi

Stjórnvöld hafa um árabil frestað því að taka ákvörðun um lagabreytingar til að heimila hjónabönd samkynhneigðra. Skoðanakannanir benda til þess að stuðningsmenn breytinga séu fleiri og að stutt gæti verið í að hjónabönd samkynhneigðra verði heimiluð. Málið hefur þó verið hitamál í landinu enda hafa bæði hægrisinnaðir stjórnmálamenn og háttsettir ein­stak­ling­ar inn­an kirkj­unn­ar lýst yfir and­stöðu sinni við að samkynhneigðir megi giftast. 

BBC bendir þó á nýlegt og nærtækt dæmi – Brexit – um að skoðanakannanir gefi ekki endilega rétta mynd af því sem koma skal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert