Ætla að flytja þúsundir á eyjuna

Rohingjar bíða í röðum eftir mataraðstoð í flóttamannabúðum í Bangladess.
Rohingjar bíða í röðum eftir mataraðstoð í flóttamannabúðum í Bangladess. AFP

Stjórnvöld í Bangladess ætla að halda til streitu áætlunum sínum um að flytja um 100 þúsund flóttamenn frá Búrma út á láglenda eyju undan ströndum landsins. Þeir segja að „mjög fljótlega“ hefjist flutningurinn á rohingjunum sem flúið hafa í þúsundavís undan ofbeldi hersins í Búrma til nágrannaríkisins Bangladess.

Eyjan Thengar Char í Bengal-flóa er það láglend að við ákveðnar veðurfarslegar aðstæður fer stór hluti hennar á kaf. Stefnt er að því að flytja rohingjana þangað innan árs. 

Tæplega 630 þúsund rohingjar hafa flúið til Bangladess frá því í ágúst er ofbeldisalda gegn þeim hófst í heimalandinu. Í Búrma höfðust þeir við á vírgirtum svæðum í Rakhine-ríki og höfðu takmarkað ferðafrelsi. Búrmíski herinn er sakaður um að hafa myrt fólk, nauðgað konum og brennt hús þeirra. 

Herinn neitar þessum ásökunum sem m.a. hafa verið framsettar af Sameinuðu þjóðunum. Samkomulag var gert nýverið milli Búrma og Bangladess um að flóttafólkinu verði gert að fara aftur til Búrma. Mannúðarsamtök sem og Sameinuðu þjóðirnar óttast að aðstæður í heimalandinu séu ekki öruggar.

Frétt CNN um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert