Fæðukeðja mannsins gæti verið í hættu

Rusl á víðavangi síast inn í jarðveginn og getur valdið …
Rusl á víðavangi síast inn í jarðveginn og getur valdið óafturkræfum skaða. AFP/ Mario Tama/ Getty Images

Alls skildu jarðarbúar eftir sig 2,3 milljarða tonna af úrgangi á síðasta ári og samkvæmt útreikningum Sameinuðu þjóðanna mun ruslahaugurinn stækka um tvo-þriðjuhluta fyrir árið 2050.

Sameinuðu þjóðirnar spá því að þessi aukning komi til með að hafa gríðarlegan kostnað í för með sér, einkum fyrir heilsu fólks, efnahaginn og umhverfið.  

Aukin mengun óhjákvæmilegur fylgifiskur

Þá kemur fram í nýjustu rannsóknum Umhverfisstofnunnar SÞ (UNEP) að mengun eigi eftir að aukast, þar sem enn meiri úrgangur kalli á aukna urðun og brennslu sem jafnframt þýði að enn fleiri gróðurhúsalofttegundir og eitruð efni sleppi út í andrúmsloftið, í jarðveginn og í vatnaleiðir.

Án brýnna aðgerða gera áætlanir ráð fyrir að úrgangsfjallið muni vaxa í 3,8 milljarða tonna um miðja öld, sem er umfram fyrri spár.

Það bendir einnig til þess að efnahagsleg byrði muni næstum tvöfaldast, þegar „falinn kostnaður“ tengdur lélegri förgun úrgangs vegna mengunar, slæmrar heilsu og loftslagsbreytinga er tekinn með í reikninginn, og ná um 640 milljörðum dollara á ári, árið 2050, úr um 361 milljarði dollara árið 2020.

Aukning á úrgangi í heiminum er vaxandi vandamál.
Aukning á úrgangi í heiminum er vaxandi vandamál. mbl.is/Árni Sæberg

Hugsa þarf um komandi kynslóðir

„Úrgangsframleiðsla er í eðli sínu bundin við landsframleiðslu og mörg ört vaxandi hagkerfi glíma við hraðan vöxt úrgangs,“ er haft eftir Inger Andersen, framkvæmdastjóra UNEP.

Sagði hún jafnframt að skýrsla UNEP og International Solid Waste Association (ISWA) gæti hjálpað stjórnvöldum í viðleitni þeirra til að skapa sjálfbærari samfélög og tryggja lífvænlega plánetu fyrir komandi kynslóðir en skýrslan var kynnt á umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið var í vikunni í Naíróbí.

Þá kemur fram í skýrslu Alþjóðabankans frá árinu 2018 að áætlað hafi verið að heimurinn myndi framleiða 3,4 milljarða tonna af úrgangi árlega árið 2050.

Bæta þarf úrgangsstjórnun

Talsmenn ISWA hafa sagt að nýja skýrslan og áætlanirnar séu bæði leiðbeiningar sem og ákall um aðgerðir til að finna lausnir.

Í skýrslunni kemur fram að þetta feli í sér í fyrsta lagi að koma í veg fyrir að ruslið verði til og betri förgun og meðhöndlunaraðferðir sem gætu takmarkað árlegan nettókostnað árið 2050 við um 270 milljarða dollara.

„Niðurstöður þessarar skýrslu sýna fram á að heimurinn þarf nauðsynlega að bæta úrgangsstjórnun til að koma í veg fyrir umtalsverða mengun, losun gróðurhúsalofttegunda og neikvæð áhrif á heilsu manna,“ sagði Zoe Lenkiewicz, aðalhöfundur skýrslunnar hjá UNEP. 

Urðunarstöðvar heimsins eru stór uppspretta losunar öflugu gróðurhúsalofttegundarinnar metans, sem losnar þegar lífrænn úrgangur, eins og matarleifar, brotnar niður, en flutningur og vinnsla á rusli myndar einnig koltvísýring sem hitar plánetuna.

Óafturkræfur skaði

Þá segir jafnframt í skýrslunni að sé ekki staðið rétt að förgun úrgangs geti hættuleg efni borist í jarðveg, vatnaleiðir og andrúmsloft og valdið langtímaskaða, hugsanlega óafturkræfum skaða, á gróður og dýralíf og haft neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika, skaðað allt vistkerfið og farið inn í fæðukeðju mannsins.

Er tekið fram að brennandi rusl geti losað svokölluð eilífðarefni út í andrúmsloftið, sem geta haft verulega skaðleg áhrif á heilsu manna og á umhverfið, en rannsóknir benda til að allt að milljón manns deyi árlega af völdum veikinda, þar á meðal niðurgangi, malaríu, hjartasjúkdómum og krabbameini, sem tengjast ómeðhöndluðum úrgangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert