Ein tillaga af 16 samþykkt

Frá kosningunni í Neskaupstað í dag.
Frá kosningunni í Neskaupstað í dag. mbl.is/Ágúst Blöndal

Fimmtán af 16 tillögum um sameiningu sveitarfélaga, voru felldar í kosningum sem fóru fram í 61 sveitafélagi í dag. Íbúar miðsvæðis í Austurbyggð voru þeir einu sem samþykktu tillöguna og munu Mjóafjarðarhreppur, Fjarðabyggð, Austurbyggð og Fáskrúðsfjarðarhreppur því sameinast í eitt sveitarfélag. Í Reykhólahreppi og í fjórum af sjö sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum verður kosið aftur um sameiningartillöguna innan sex vikna.

Reykhólahreppur felldi tillögu um sameiningu við Dalabyggð og Saurbæjarhrepp en hinir hreppirnir tveir samþykktu. Í Þingeyjarsýslum felldu íbúar í Skútustaðahreppi, Aðaldælahreppi, Tjörneshreppi og Kelduneshreppi sameiningartillöguna en Húsavík, Öxarfjarðarhreppur og Raufarhafnarhreppur samþykktu.

Kosningar í þeim sveitarfélögum, þar sem kosið er aftur, eiga samkvæmt lögum að fara fram fyrir miðjan nóvember. Þegar niðurstaða úr þeirri kosningu liggur fyrir geta sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga, þar sem sameiningin var samþykkt ákveðið að sameina þau. Einnig getur sameiningarnefndin á landsvísu lagt fram nýjar tillögur en ólíklegt er að til þess komi miðað við þessa niðurstöðu.

Alls voru kjósendur á kjörskrá 69.144 en atkvæði greiddu 22.271 sem gerir 32,2% kjörsókn. 9622 voru fylgjandi sameiningu eða 43,8% en 12.335 andvígir eða 56,2%. Auðir og ógildir seðlar voru 315.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka