Óvænt utandagskrárumræða um úrslit sameiningarkosninga

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Óvænt utandagskrárumræða fór fram á Alþingi í dag um úrslit sameiningarkosninganna sl. laugardag. Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, upplýsti í upphafi þingfundar að fjórir þingmenn hefðu beðið um umræðu um málið og tveir til viðbótar hefðu lýst áhuga á slíkri umræðu. Því hefði hún gert samkomulag við Árna Magnússon, félagsmálaráðherra, að hann tæki málið upp í upphafi þingfundar án þess að um formlega og boðaða umræðu væri að ræða.

Árni sagði, að sveitarstjórnarmenn úr öllum flokkum hefðu haft frumkvæði að því átaki, sem gert var til að freista þess að sameina sveitarfélög í lýðræðislegum kosningum. Ráðuneytið hefði tekið þátt í því verkefni í samræmi við lög. Una verði við niðurstöðuna, sem fékkst fram í kosningunum á laugardag.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu félagsmálaráðherra og ríkisstjórnina harðlega fyrir það hvernig staðið var að undirbúningi sameiningarkosninganna. Margir lýstu þeirri skoðun, að tekjustofnanefnd, sem fjallaði um tekjustofna sveitarfélaga, hefði ekki komið með trúverðugar tillögur og þar vantaði enn varanlega úrlausn. Þetta hefði aukið á vantraust milli ríkis og sveitarfélaga og því hefði farið svona illa.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði að byrjað hefði verið á öfugum enda í málinu. Fyrst hefði þurft að sjá sveitarfélögunum fyrir viðunandi tekjustofnum til að standa sómasamlega að núverandi verkefnum áður en þýddi að tala um flutningi frekari verkefna til þeirra frá ríkinu eða frekari sameiningu á óljósum forsendum. Menn væru orðnir leiðir á að kaupa köttinn í sekknum.

Árni Magnússon minnti á að tekjustofnaviðræðum hefði lokið í mars með samkomulagi um að nálægt 10 milljarðar króna hefðu verið færðar til sveitarfélaganna. Árni sagði sáralítil umræða hefði farið fram á almennum íbúafundum fyrir sameiningarkosningarnar um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ástæður þess að íbúar voru andvígir sameiningu sveitarfélaga hafi einkum verið mismunandi skuldastaða, ótti við hina stóru, ótti við að verða jaðarbyggð í sveitarfélagi, fjallskil, jarðir, skóla o.fl.

Árni sagði að kjarni málsins væri sá, að sveitarstjórnamenn hefðu óskað því að ríkisvaldið kæmi að sameiningu sveitarfélaga. Við því hafi verið orðið og Alþingi samþykkt aðferðina sem notuð var. Nú hafi kosningin farið fram og fyrir liggi lýðræðisleg niðurstaða. Henni uni allir að stjórnarandstöðunni undanskilinni. Sagði Árni óskiljanlegt, að lýðræðisleg niðurstaða skuli fara svona mikið í taugarnar á lýðræðislega kjörnum fulltrúum á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert