Segir úrslitin eins og til var sáð

Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans, segir á heimasíðu sinni í dag, að úrslitin úr kosningum um sameiningu sveitarfélaga hafi orðið eins og til var sáð. Sameiningartillögurnar hafi beðið afhroð og hið sama megi segja um þá aðferðafræði sem var viðhöfð og stjórnvöld beri einkum ábyrgð á.

„Stjórnvöld lögðu af stað í leiðangur undir heitinu Átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins og urðu þá til þær 16 tillögur um sameiningu sveitarfélaga sem nú hefur að mestu verið hafnað. Ég hef skrifað um það áður hér að sameining sveitarfélaga og efling þeirra er sitt hvor hluturinn. Því miður hafa stjórnvöld hins vegar sett samasemmerki þarna á milli og haldið að með því að sameina sveitarfélögin þá myndu þau sjálfkrafa eflast. Það er álíka og að sameina tvö fallít fyrirtæki og halda að úr því verði blómlegt bú!" segir Árni Þór.

Hann segir mikilvægt að efla sveitarstjórnarstigið í landinu en til að ná því þurfi fyrst og fremst að færa sveitarfélögunum fleiri verkefni, styrkja hið lýðræðislega stjórnkerfi þeirra og umfram allt tryggja þeim viðunandi og nægilega tekjustofna til að þau geti sinnt verkefnum sínum með sóma og veitt íbúunum öfluga og góða þjónustu. Sameining sveitarfélaga skili engu af þessu í raun og veru.

„Þessu til viðbótar kom svo skýrt fram í vetur að stjórnvöld voru ekki reiðubúin til að tryggja sveitarfélögunum viðunandi tekjustofna. Í viðræðum ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna sveitarfélaga, sem ég tók þátt í að hluta fyrir hönd sveitarfélaganna, kom sífellt fram að ríkið reyndi að komast eins ódýrt frá öllum samningum, sveitarfélögin þurftu eilíflega að leggja fram ítarlegar og rökstuddar greinargerðir máli sínu til stuðning og þó náðust ekki betri samningar en raun bar vitni. Tekjustofnasamningur ríkis og sveitarfélaga frá því fyrr á þessu ári var samþykktur í miklum ágreiningi sveitarfélagamegin og var eiginlega þvingaður í gegn af ríkisstjórnarflokkunum. Þetta vissu íbúar sem í gær tóku afstöðu til sameiningartillagnanna og höfðu enga ástæðu til að trúa því og treysta að sveitarfélögin yrðu raunverulega efld. Þess vegna fór sem fór, það var uppskorið eins og til var sáð," segir Árni Þór.

Heimasíða Árna Þórs Sigurðssonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert