Íbúum leyft að fara heim

Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í hlaupinu í morgun.
Brúin yfir Múlakvísl eyðilagðist í hlaupinu í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

Ákveðið var á fundi jarðvísindamanna með almannavörnum sem lauk skömmu fyrir kl. 15, að aflétta rýmingu í Álftaveri og Meðallandi. Íbúar mega því fara heim til sín.

Órói við Mýrdalsjökul hefur minnkað eftir því sem liðið hefur á daginn og hafa almannavarnir því ákveðið að aflétta hættustigi á Mýrdalssandi. Mýrdalsjökull er þó áfram hættusvæði. Önnur svæði hafa verið færð af hættustigi yfir á óvissustig og verður haldið uppi vakt á Veðurstofu Íslands meðan staðan er á því stigi. 

11 bæir í Álftaveri voru rýmdir í morgun og 8 bæir í Meðallandi. Þá fór fólk sem var á ættarmóti í Álftaveri af svæðinu.

Sjatnað hefur mikið í Múlakvísl síðan í morgun og er vegurinn að stærstum hluta kominn í ljós, en hann var að miklu leyti á kafi í morgun. Talsvert íshröngl er á veginum. Greinilegt er að flóðið í morgun hefur brotið niður stórann kafla úr ströndinni, líklega meira en kílómetra.  Hlaupið hefur fallið yfir fjörukambinn og tekið hann með sér að nokkru leyti.

Í tilkynningu frá Samhæfingarmiðstöð segir: „Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli og vísindamenn  lækkað almannavarnastig af hættustigi niður á óvissustig. Órói hefur minnkað í jöklinum og vatnsyfirborð lækkað í Múlakvísl. Sérstök vakt verður á Veðurstofu Íslands og fylgst með framvindunni. Rýmingu í Álftaveri og Meðallandi hefur verið aflétt. Mýrdalsjökull er áfram skilgreint hættusvæði og lokaður allri umferð. Slysavarnafélagið Landsbjörg verður með öfluga hálendisvakt á svæðinu. Fjöldahjálparstöð verður áfram opin á Kirkjubæjarklaustri.“

Íris Marelsdóttir, upplýsingafulltrúi í Samhæfingarstöð, segir að Mýrdalsjökull sé skilgreindur hættusvæði fyrst og fremst vegna þess að stórar sprungur og stórir sigkatlar séu í jöklinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert