Sækir um listabókstafinn C

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, í innanríkisráðuneytinu í dag.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, í innanríkisráðuneytinu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ný stjórnmálahreyfing undir forystu Lilju Mósesdóttur alþingismanns hefur sótt um listabókstafinn C. Lilja mætti í innanríkisráðuneytið um klukkan hálffjögur í dag og lagði inn umsóknina.

Í samtali við mbl.is segir Lilja að umsóknin fari nú í gegnum ákveðið ferli hjá ráðuneytinu og það eigi eftir að koma í ljós hvort hún verður samþykkt. Þar sé einkum horft til þess hversu langt sé síðan umræddur listabókstafur hafi verið notaður síðast.

„Við ákváðum að vera framarlega í stafrófinu til þess að undirstrika það að við erum alvörustjórnmálaafl og það réð miklu um valið á bókstafnum,“ segir Lilja aðspurð hvers vegna listabókstafurinn C hafi orðið fyrir valinu.

Spurð hverjar verði helstu áherslur nýrrar stjórnmálahreyfingar segir Lilja að grunnstefnan verði kynnt á blaðamannafundi sem boðað hefur verið til á morgun og þá muni ennfremur hluti undirbúningshópsins stíga fram.

„Þetta er fólk sem kemur úr ýmsum áttum og þá ekki síst í pólitíkinni en með sameiginlega sýn á stöðuna í þjóðfélaginu í dag og þær lausnir sem þarf að innleiða,“ segir Lilja en bætir við að enn eigi eftir að móta stefnuna að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert