3 nýir áfangastaðir Iceland Express

Iceland Express.
Iceland Express.

Iceland Express verður með áætlunarflug til þriggja nýrra áfangastaða og höfuðborga næsta sumar en það eru Prag í Tékklandi, Vilnius í Litháen og Edinborg í Skotlandi. 

Í heildina verður því flogið til sextán áfangastaða í Evrópu á komandi sumri og er þetta ein viðamesta sumaráætlun í sögu félagsins, segir í tilkynningu frá Iceland Express.

Áfangastaðirnir í gömlu Austur-Evrópu verða fjórir í sumar því eins og áður verður líka flogið til Varsjár og Krakár í Póllandi.

Flogið verður til þriggja flugvalla á Bretlandseyjum næsta sumar, sex sinnum í viku til Gatwick-flugvallar og tvisvar í viku til Stansted-flugvallar við Lundúnir og til Edinborgar í Skotlandi.

Eins og undanfarna mánuði verður flogið með Airbus A320 flugvélum af nýjustu kynslóð frá HCA-flugfélaginu. Þá hafa Iceland Express og Airport Associates (APA) gert með sér samning til þriggja ára um þjónustu APA við flugvélar félagsins innan og utan flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, segir ennfremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert