919 krónur á dag stöðva hvalveiðar

Jónas Garðarsson.
Jónas Garðarsson. mbl.is

Hvalveiðar verða ekki stundaðar við Íslandsstrendur í sumar vegna þess að samkomulag hefur ekki náðst við Sjómannafélag Íslands um bætur vegna skerðingar á sjómannaafslætti. Formaður félagsins segir að bæturnar sem farið sé fram á nemi 919 krónum á mann á dag.

Stjórnvöld hafa skert afsláttinn og er hann nú helmingur þess sem hann var.

„Það hefur verið ósamið við fiskiskipaútgerðina vegna skerðingarinnar, en ég veit til þess að það hafi verið tekið tillit til hennar í öðrum samningum,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands.

„Við viljum að útgerðin greiði þá upphæð sem búið er að skerða laun mannanna um. Þetta er klink; 919 krónur á dag.“

Að sögn Jónasar eru í félaginu m.a. farmenn, varðskipsmenn, hvalveiðimenn, hafrannsóknamenn, ferjumenn og stór hluti íslenskra fiskimanna. 

„Ég vissi ekki að málið væri í þessum farvegi, satt best að segja og það kemur mér á óvart að það verði ekki farið til hvalveiða vegna þessa. Við höfum hitt þá hjá Hval tvisvar sinnum og sögðumst ekki geta gert við þá samning ef ekki væri tekið tillit til afsláttarins. Við áttum ekki von á þessu og okkur finnst þetta sérkennilegt. En þetta verður að hafa sinn gang.“





Langreyður skorin í Hvalfirði.
Langreyður skorin í Hvalfirði. Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert