Leggur af stað á tindinn

Árni Eðvaldsson fjallgöngumaður ætlar að leggja á tind Broad Peak, sem er nyrst í fjallahéruðum Pakistans, í nótt en ófært hefur verið á fjallið undanfarna daga vegna mikillar snjóflóðahættu. Allir sem hafa reynt að klífa Broad Peak að undanförnu hafa þurft frá að hverfa.

Broad Peak-tindurinn er 8.050 metra hár. Árni hefur áður klifið hæst tind Ama Dablam í Nepal, sem er 6.856 metrar. Árni hefur stundað fjallamennsku víða um heim frá 1990, hann er leiðsögumaður og var lengi á útkallslista undanfarasveitar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.

Að sögn Árna hefur hann hvílt undanfarna fjóra daga eftir að hafa sofið eina nótt í búðum þrjú sem eru í rúmlega sjö þúsund metra hæð. Hann segir að aðstæður þar hafi verið erfiðar, hryllilega kalt og hvasst.

Það verður um tíu manna hópur sem reynir við tindinn nú en vonast er til þess að auðveldara verði að búa til leið upp fjallshrygginn svo mörg saman.

Langir dagar framundan

Lagt verður af stað úr grunnbúðunum um tvöleytið í nótt, farið beint í búðir tvö og búðum eitt sleppt. Þetta er um tíu tíma gangur en leiðin upp á tindinn verður löng og ströng. Frá búðum tvö yfir í búðir þrjú er átta til níu tíma gangur og aðstæður erfiðar.

Að sögn Árna vonast hann til þess að ná á tindinn hinn 20. júlí ef allt gengur að óskum en alls muni ferðalagið taka fimm sólarhringa. Þar skiptir mestu hvernig veðrið er því eins og áður sagði hafa allir þurft frá að hverfa undanfarið. Árni segir að margir þeirra séu fjallgöngumenn sem „kalli ekki allt ömmu sína“ sem lýsir því vel hvaða aðstæður eru á þessum slóðum.

Ef taldir eru upp þeir 8.000 m tindar sem klifnir hafa verið af Íslendingum eru þeir aðeins tveir, annars vegar Everest 8.848 m og hins vegar Cou Oyu 8.201 m, og höfum við átt menn á tindi í fjórgang á hvoru fjalli fyrir sig.

Þriðja fjallið sem bætist í flóruna nefnist Broad Peak og er 8.050 m, eins og fyrr segir. Það er í Karakorum-fjallgarðinum, á Gilgit Baltistan-sjálfstjórnarsvæðinu í norðurhluta Pakistans. Fjallið er afskekkt, umkringt skriðjöklum og í hrikalegasta fjallasal sem getur að líta hér á jörð.

Á litlu svæði innan fjallgarðsins, sem telst um 20 km í þvermál, eru fjórir 8.000 m tindar ásamt ótal 7.000 m tindum. Fjöllin eru svo afskekkt að enginn hafði barið þau augum og þau fengu ekki nafn fyrr en liðið var á nítjándu öldina. Þar var á ferð breski landmælingamaðurinn Thomas Montgomery sem mældi þau í um 200 km fjarlægð og gaf þeim númer frá K1 til K5 og stóð K fyrir Karakorum.

Nágranni frá helvíti

Broad Peak er þriðja hæst en næsti nágranni er sannkallaður nágranni frá helvíti; K2, sem rís 8.611 m. K2 er talið eitt af torkleifustu fjöllum jarðarinnar og hefur oft verið vettvangur mikilla mannrauna. Þar er einna hæsta dánartíðnin, en á móti hverjum fjórum sem ná tindinum lætur einn lífið. Í samanburði telst Broad Peak barnaleikur og með öruggasta móti meðal 8.000 m fjalla. Leiðin að fjallinu liggur frá Skardu, þaðan sem er ekið á jeppum að síðasta byggða bólinu, Askhole. Þaðan hefst svo gangan að fjallsrótum og tekur um átta daga og er að mestu á hinum torfarna 62 km langa Baltoro-skriðjökli, að því er fram kom í umfjöllun um ferðalag Árna í Sunnudagsmogganum hinn 24. júní sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert